Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2015 | 10:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Mikko Korhonen (27/27)

Nú á bara eftir að kynna þann sem sigraði á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni  15.-20. nóvember 2014, en það er finnski kylfingurinn Mikko Korhonen.

Korhonen er fyrsti Finninn til þess að sigra á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Mikko Korhonen er fæddur 23. júlí 1980 í Mäntsälä í Finnlandi og er því 34 ára.

Hann byrjaði að spila golf 10 ára, ári eftir að pabbi hans byrjaði. Hann varð fljótt miklu betri en pabbinn. Hann spilaði í unglinga- og áhugamannsárum sínum með Mikko Ilhonen en báðir eru þeir nú komnir á Evrópumótaröðina.

Mikko hefir þann ávana að nota alltaf græn flatarmerki þegar hann spilar.

Mikko hefir verið fastagestur í Q-school Evrópumótaraðarinnar allt frá árinu 2003. Hann gerðist atvinnumaður 2005. Mikko náði að komst inn á mótaröðina eftir Q-school 2011 þegar hann varð í 3. sæti í Q-school 2010. Hann átti í erfiðleikum og var kominn aftur á Áskorendamótaröðina 2012 þar sem hann varð í 29. sæti á peningalistanum, en komst aftur inn á Evrópumótaröðina eftir að hann tók 9. sætið í Q-school í  nóvember 2012 og spilaði því á Evrópumótaröðinni 2013.

Mikko kvæntist Lauru konu sinni 2007 og á tvær dætur Elsu (2006) og Oonu (2010).

Meðal áhugamála Mikko er eldamennska og vín, tennis og íþróttir almennt, rokkmúsík og að horfa á kvikmyndir.

Mikko er sem stendur nr. 410 á heimslistanum.