Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 21. 2013 | 08:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Jack Doherty (3/27)

Jack Doherty er annar af tveimur Skotum, sem komust í gegnum lokaúrtökumótið í Girona á Spáni og hljóta þ.a.l. kortin sín á Evrópumótaröðina 2014.  Báðir Skotarnir, Jack Doherty og Alastair Forsyth voru meðal þeirra síðustu til þess að komast þ.e. rétt smugu í gegn, voru í 22.-27. sæti, tveir af 6 strákum. Báðir voru þeir á 9 undir pari, 419 höggum og hlutu báðir € 1.937,- í verðlaunafé.   Doherty spilaði hringina 6 á eftirfarandi máta: 68 70 66 71 73 71 – Forsyth hefir þegar verið kynntur.  En hver er Doherty?

Jack Doherty er fæddur 28. apríl 1982 í Canberra á Ástralíu og er því 31 árs. Doherty gerðist atvinnumaður 2003 og er sem stendur nr. 1188 á heimslistanum.  Hann er 1,88 m á hæð og 83 kg.

Frá því Doherty gerðist atvinnumaður hefir hann á hverju ári tekið þátt í Q-school Evrópumótaraðarinnar.

Doherty býr í Kilmarnock í Skotlandi og er þar í golfklúbb sem heitir Galies.

Meðal áhugamála Doherty fyrir utan golfið eru fótbolti, fjölskylda og vinir.  Doherty er kvæntur konu sinni Jocelyn.

Doherty hefir aðallega spilað á Áskorendamótaröð Evrópu.   Með því að SMELLA HÉR: má sjá ágætis viðtal við Doherty frá því fyrr á þessu ári, þar sem fræðast má margt um hann.