Daníel Brooks
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 3. 2013 | 10:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Daníel Brooks (9/27)

Nú verður fram haldið að kynna nýju strákana á Evróputúrnum 2014 þ.e. þá 27 sem fengu kortin sín á Evrópumótaröðina fyrir keppnistímabilið 2014 í gegnum lokaúrtökumót Q-school, sem fram fór á PGA Catalunya golfvellinum í Girona, Spáni, 10.-15. nóvember s.l.

Haldið verður áfram að kynna þá 5 stráka sem urðu í 17.-22. sæti og voru allir á samtals 10 undir pari, 418 höggum.  Daníel Brooks  frá Englandi var einn þeirra, (lenti í 19. sæti með hringi upp á 65 71 69 66 76 71).

Daníel Brooks fæddist 5. janúar 1987 í Basildon á Englandi en býr í London þar sem hann er félagi í Mill Hill golfklúbbnum. Hann er því að verða 27 ára í næsta mánuði.  Brooks er 1,83 metra á hæð og 71 kíló.  Utan golfsins hefir hann mest áhuga á að sósíalisera og svo er fótbolti í miklu uppáhaldi en uppáhaldsfótboltafélagið í enska boltanum er Manchester United.

Brooks gerðist atvinnumaður í golfi árið 2007.  Hann hefir allt frá þeim tíma tekið þátt í Q-school Evrópumótaraðarinnar, en þetta  er annað árið hans á túrnum.  Brooks spilaði 2011 og 2012 á Áskorendamótaröðinni og í árslok 2012 var hann í 21. á stigalistanum og ávann sér þar með keppnisrétt á Evróputúrnum í fyrsta sinn nú í ár, 2013, í gegnum Áskorendamótaröðina. Hann hefir átti í nokkru basli nýliðaár sitt og því varð ekki komist hjá enn annarri ferðinni í Q-school.

En Brooks byrjar 2014 keppnistímabilið vel. Hann tók þannig þátt í Alfred Dunhill mótinu nú s.l. helgi (28. nóvember – 1. desember)  í Suður-Afríku og varð T-29 og er því í 449. sæti á heimslistanum í þessari viku.