Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 8. 2013 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2013: Mikael Lundberg – (27. grein af 28)

Hér í kvöld verður kynntur  kylfingurinn sem varð í 2. sæti í Q-school Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfvöllunum í Girona á Spáni 24.-29. nóvember s.l., Svíinn, Mikael Lundberg.  Hann var 4 höggum á eftir þeim sem vann Q-school 2012, Englendingnum John Parry, sem verður kynntur á morgun.

Mikael er fæddur 13. ágúst 1973 í Helsingborg í Svíþjóð og á því 40 ára stórafmæli á árinu.  Það var pabbi hans, Lars (með 4 í fgj) sem kenndi Mikael golf og Mikael var orðinn scratchari við 17 ára aldur og kominn í sænska landsliðið 3 árum síðar.

Hann gerðist atvinnumaður í golfi 1997.  Sem áhugamaður var hann m.a. í liði Svía í Eisenhower Trophy 1994. Hann spilaði í nokkur ár á Áskorendamótaröð Evrópu og sigraði í fyrsta sinn á Himmerland Open 1997. Hann vann sér í fyrsta sinn kortið sitt á Evrópumótaröðinn, árið  2000 þegar hann varð í 4. sæti Áskorendamótaraðarinnar.

Eftir 2 stöðug tímabil á Evrópumótaröðinni varð hann í 137. sæti á stigalistanum og var aftur kominn á Áskorendamótaröðina 2004.

Lundberg komst aftur á Evrópumótaröðina með sigri á Cadillac Russian Open 2005,  sem var opinbert mót á báðum mótaröðum en var aftur fyrir utan topp 150 á stigalistanum 2006 og sneri því aftur á Áskorendamótaröðina.

Lundberg var aftur meðal efstu 10 á stigalista Áskorendamótaraðarinnar 2007 og spilaði á Evrópumótaröðinni 2008 og vann þá aftur á Russian Open, sem varð til þess að hann hlaut 2 ára undanþágu til að spila á Evrópumótaröðinni eða út árið 2010.

Nú er Lundberg enn einu sinni á Evrópumótaröðinni keppnistímabilið 2013. Hann á 3 börn Lukas (f. 2000), Alva (f. 2002) og Charlie (f. 2005). Aðaláhugamálið eru íþróttir almennt. Mikael Lundberg býr í Barcelona á Spáni.

Heimild: Wikipedia