Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 16. 2014 | 20:45

Nær Tiger risamótsmetinu af Nicklaus?

Jack Nicklaus hefir sigrað í 18 risamótum á ferli sínum, meðan Tiger hefir „aðeins“ sigrað í 14 mótum, síðast árið 2008 þ.e. fyrir 6 árum.

Stóra spurningin s.l. 6 ár hefir því verið hvort Tiger nái risamótsmetinu af Nicklaus en til þess þarf hann að sigra í 5 risamótum í viðbót.

Við lýsingu á fyrsta móti ársins á PGA Tour, Hyundai Tournament of Champions spurði Rich Lerner, á Golf Channel golfskýrandann og tvöfaldan risamótsmeistrann Johnny Miller að því hvort hann teldi að Tiger myndi slá eða jafna risamótsmet Nicklaus.

Miller svaraði með stuttu „nei.“  Hann útskýrði afstöðu sína með því að segja að til þess þyrfti Tiger að sýna af sér frægðarhallarkylfings leik næstu 5-8 ár og hann héldi einfaldlega að Tiger tækist það ekki.

Í viðtali árið 2010 á ESPN Chicago Radio taldi Miller að Tiger myndi eiga erfitt með bara að jafna met Nicklaus.

Tveimur árum síðar, 2012, sagði Miller í viðtali við Golf Magazine að hann héldi að Tiger myndi sigra í 4 risamótum í viðbót, jafna við Nicklaus en hann myndi ekki ná 5. risamótssigrinum.

Nú enn tveimur árum síðar, 2014, hefir skoðun Millar snúist 360 gráður og hann telur ekki að Tiger muni einu sinni jafna risamótsmet Nicklaus og er það í samræmi við skoðanakönnun sem Golf Magzine birti nú nýverið en þar taldi meirihluti þeirra atvinnukylfinga (74%) sem spurðir voru,  að Tiger myndi ekki slá við risamótsmet Nicklaus, aðeins 26% aðspurðra taldi að Tiger myndi takast það en stór meirihluti (92%) taldi hins vegar að Tiger myndi sigra í 2 eða fleiri risamótum í viðbót.  Naumur minnihluti (46%) taldi að Tiger myndi takast að jafna risamótsmet Nicklaus eða gera betur.

En bara svo það sé á hreinu: Jack Nicklaus var 38 ára og 7 mánaða þegar hann vann 15. rismótið sitt – ef Tiger vinnur á The Masters nú í ár, 2014,  verður hann 38 ára 3 mánaða og 14 daga gamall þ.e. yngri en þegar Nicklaus vann 15. mótið sitt – Og Tiger þarf ekkert endilega að vera jafngamall og Nicklaus þegar hann sigrar risamót – hann þarf bara að sigra í þeim! Eftir stendur að Tiger á GOTT tækifæri til þess að jafna eða slá við risamótsmeti Nicklaus og Nicklaus sjálfur fremstur í flokki þeirra sem telja að Tiger muni takast afrekið!