Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 23. 2012 | 15:00

Mesta eftirsjá stórkylfinga: Rory McIlroy (6. grein af 20)

Þessi 23 ára golfsnillingur frá Norður-Írlandi og núverandi nr. 1 á heimslistanum var með forystuna á Masters 2011 og átti eftir að spila 9 holur en leikur hans gjörsamlega hrundi eftir slæmt högg á 10. braut  og hann lauk seinni 9 á hræðilegum 43 höggum. Hann var samt fljótur að jafna sig þegar hann sigraði á Opna bandaríska risamótinu 2 mánuðum síðar, þar sem hann átti 8 högg á næsta mann og setti allskyns met á mótinu.  Skyldu seinni 9 á The Masters í Augusta 2011 vera það sem Rory sér mest eftir á glæstum ferli sínum?

Gefum Rory orðið:

„Nei, það er ekki drævið af 10. teig í Augusta 2011. Ef það væri eitt högg sem ég myndi gjarnan vilja spila aftur þá væri það 1,5 metra púttið fyrir sigri í Crans 2008 [það var á European Masters í Crans-sur-Sierre, Sviss]. Það myndi hafa verið fyrsti sigur minn sem atvinnumanns. En ég púttaði svo illa. Þetta var 1,5 metra pútt upp í móti og ég „pull-aði“. Ekki fallegt.  Og til að bæta gráu ofan í svart, þá tapaði ég í umspilinu.

Mesta eftirsjáin utan vallar? Það er erfiðara. Ég hef átt nokkuð gott líf, ef eitthvað þá sé ég eftir að hafa ekki verið í skóla í 1 ár í viðbót. Ég hætti í skóla þegar ég var 16 ára og það er kannski svolítið ungt. Ég er ekki viss um hverju ég missti af, en ég held að mér myndi hafa þótt gaman að vera í 1 ár í viðbót í skóla með öllum vinum mínum.“

[Innskot: Þetta er eftirsjá margra kylfinga, sem og íþróttamanna sem helga sig íþróttagrein sinni snemma á ferlinum, líkt og t.d. fyrirsæta, dansara eða leikara o.fl. sem hætta skóla of fljótt til að helga sig atvinnu eða list sinni – það er þessi tilfinning að hafa lifað of fljótt og að hafa misst af æskunni því maður er jú bara einu sinni 16,17,18 ára – jafnvel þótt hægt sé að fara í skóla síðar. Margir gera sér ekki grein fyrir fórnunum sem færðar eru í formi þrotlausra æfinga fyrir stjörnulíf íþróttamannsins – hafa óljósa hugmynd, en þekkja ekki tilfinninguna, þetta stóra tóm sem peningar fá þegar öllu er á botninn hvolft ekki fyllt.]

Heimild: Golf Digest