Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 22. 2013 | 22:30

Málþing um „Golf sem lífstíl“ – stutt samantekt

Í upphafi skyldi endinn skoða. Í kvöld var haldið stórskemmtilegt málþing á vegum GSÍ, sem bar yfirskriftina „Golf sem lífstíll“ með 5 fyrirlesurum, ávarpi forseta GSÍ, Jóns Ásgeirs Eyjólfssonar í upphafi og samantekt varaformanns GSÍ, Hauks Arnar Birgissonar í lokin.

Hér verður tæpt á samantekt Hauks Arnar, sem býður sig fram til forseta GSÍ á Golfþingi á morgun.   Golf 1 mun fjalla ítarlegar um fyrirlestra einstakra fyrirlesara á næstu dögum.

Haukur Örn Birgisson, varaforseti GSÍ. Mynd: Golf 1

Haukur Örn Birgisson, varaforseti GSÍ, á málþinginu „Golf sem lífstíll.“ Mynd: Golf 1

Haukur Örn byrjaði á að fara yfir langan og fróðlegan fyrirlestur formanns R&A 2013, Pierre Bechmann.

Það sem Hauki Arnari fannst athyglivert í fyrirlestri Bechmann er að R&A gerir ekkert nema að vera beðið um það, R&A taka ekki að sér nein hlutverk, en framkvæmir það sem þau hafa gert hingað til gert.   R&A eru ásamt USGA æðstu yfirvöld golfhreyfingarinnar, sem setja golfleiknum m.a. reglur. Hins vegar kom fram hjá Bechman að samkomulag væri um að fylgja reglum R&A – Menn gætu alltaf sagt sig úr lögum við R&A. Golfsamfélög hefðu samt ákveðið að vera undir umsjón R&A en R&A hefðu í raun ekkert vald yfir neinum.  Allar ákvarðanir eins og bann á löngum pútterum væru samkomulagsatriði.  Fram kom í máli Bechmann að til stæði að endurskrifa golfreglurnar og vinnuhópur væri í gangi en útilokað væri að segja fyrir um hvenær þeirri vinnu lyki.  Bechmann fjallaði jafnframt um það hlutverk R&A að hafa eftirlit með útbúnaði og stæði m.a. fyrir ítarlegum rannsóknum þar á m.a. högglengd.   R&A gegnir einnig stuðningshlutverki við „vanþróuð golflönd“ og leggur þar m.a. til mikið kennsluefni.

Fram kom í máli Hauks Arnar að mikil törn væri á Bechmann; hann hefði t.a.m. ekki sofið í sama rúmi tvo daga í röð undanfarna 3 mánuði. Einnig sagði Haukur Örn að Bechmann væri 56 ára og þar með mun yngri en aðrir kapteinar R&A á undan honum, sem hefðu yfirleitt verið í kringum 80 ára og átt mun erfiðar með að ferðast eins og Bechmann gerir.

Bechmann sýndi málþingsgestum myndskeið í lokinn frá setningu þess þegar hann varð kapteinn R&A en hefð er fyrir að nýir kapteinar R&A tíi upp og slá högg.  Bechmann sagði að boltinn hans hefði flogið 196 metra í lofti og rúllað eitthvað aðeins lengra en hann hefði sjaldan verið eins stressaður að slá og þarna.

Brynjólfur Mogensen, læknir, hélt næst erindi um forvarnargildi golfs og gildi líkamsrækar. Hann vakti m.a. athygli á að æfingaaðstöðu fyrir kylfinga vantaði yfir veturnar.  Hann sagði að ekki bara æfingar í púttum og sveiflum væru gagnlegar heldur yrði skipulega að leggja stund á líkamsrækt. Síðan væri ávinningur að fara til sjúkraþjálfara eins og Gauta Grétarssonar, en það hefði m.a. orðið til þess að hann hefði ekki þurft að gleypa pillu í 3 ár!  Í ræðu Brynjólfs kom loks einnig fram að einungis 0,7% íþróttameiðsla ættu sér stað í golfleik.

Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ hélt næst ræðu. Í máli hans kom m.a. fram að það yrði að takast á við það vandamál að kylfingum væri að fækka þó sú fækkun hefði verið lítil en aðeins fækkaði um 40 kylfinga 2013 frá árinu þar áður.  Honum fannst og að betur mætti gera í barna- og unglingstarfi, þó á ýmsum stöðum s.s. Suðurlandi væri margt gott að gerast. Jafnframt sagði Hörður að í könnunum kæmu fram þau viðhorf að tímafrekt og dýrt væri að fara í golf. Golfhreyfingin yrði að takast á við þetta til að sporna við fækkun. Fram kom að mesta brottfall kylfinga væri í hæsta forgjafarflokki og því mikilvægt að ná til kylfinga, sem væru að byrja.

Næst hélt Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ tölu. Hann fór yfir það sem gerði Mosfellsbæ að heilsubæ, sem væri með stefnumótun í gangi í íþróttamálum. Varaforsetanum fannst sérlega ánægjulegt að heyra lýsingu Haraldar á að Mosfellsbær gerði land undir afþreyingu hærra undir höfði, því þar væri verið að skapa verðmæti til langs tíma en ekki kassa inn skyndigróða með því t.a.m. að byggja á landinu. Bæjarstjórinn sagði m.a. að margir flyttu til Mosfellsbæjar vegna þess að þar væri fyrirmyndaraðstaða til íþrótta og golfs.  Haraldur lagði m.a. áherslu á að breyta þyrfti ímynd golfs og rakti m.a. sögur af löngum fundum í bæjarstjórn þar sem golf hefði verið til umræðu.

Loks hélt Eggert Eggertsson , félagi í NK, 15 mínútna ræðu sem bar yfirskriftina „Í sátt við umhverfið.“ Þar fór Eggert m.a. yfir góð og slæm áhrif golfvalla á umhverfið. Sérstaklega gerði Eggert grein fyrir umhverfi NK í fortíð og nútíð og hvernig það mætti þróast í framtíð. Hann sagði m.a. að golfvellir gætu aukið fjölbreytni lífríkis með réttri uppbyggingu og umhirðu. Eggert fór einnig ítarlega í Umhverfishandbók sem þeir í NK unnu og umhverfisvottun.