Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 21. 2018 | 21:00

LPGA: Ólafía ánægð – Ragnar Már á pokanum

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir komst ekki í gegnum niðurskurð á Kingsmill mótinu.

Aðeins munaði 1 sárgrætilegu höggi að hún kæmist gegnum niðurskurð, en mestu þar um réðu 2 skrambar og 2 skollar, sem hún hlaut fyrstu tvo keppnishringi sína, báðar „bomburnar“ á síðustu holum beggja hringja sinna, eftir að hafa spilað frábært golf allar fyrri 16 holurnar.

Kingsmill var 10. LPGA mót Ólafíu Þórunnar á 2018 keppnistímabilinu, en það sem af er hefir henni  tekist að komast 3 sinnum gegnum niðurskurð.

Ólafía sjálf segir leik sinn vera að lagast og hún var ánægð með spil sitt á Kingsmill. Ennfremur lýsti hún yfir ánægju með kylfusvein sinn, Ragnar Má Garðarsson, GKG, en hann bar kylfur Ólafíu Þórunnar í Kingsmill mótinu.

Því miður fór Ólafía úr 101. sæti stigalista LPGA í 108. sætið stigalistans, við það að komast ekki í gegnum niðurskurð, en hún þarf að vera meðal efstu 100 í árslok til þess að halda spilarétti sínum á LPGA.

Frábært hversu jákvæð Ólafía er, þrátt fyrir ergilega útkomu á Kingsmill, lítur hún á það sem var gott … að spil hennar fari batnandi og hversu afslappað og gott samstarfið við Ragnar Má var! „Take the positives…“ Svona er hugarfar þeirra allra bestu og má taka Ólafíu til fyrirmyndar!!!

Næsta mót Ólafíu Þórunnar er LPGA Volvik Championship, sem fram fer í Ann Arbor í Michigan og hefst nú í vikunni þ.e. stendur 24.-27. maí 2018.

Í fyrra komst Ólafía Þórunn í gegnum niðurskurð á Volvik og vonandi að það sama sé upp á teningnum í ár – og jafnvel að Ólafía nái betri árangri en í fyrra, þar sem hún lauk keppni T-54 …. þó auðvitað sé bara glæsilegt að komast gegnum niðurskurð!!!

Sjá má lista keppenda í Volvik mótinu með því að SMELLA HÉR: