Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 18. 2012 | 08:30

LPGA: Na Yeon Choi í forystu fyrir lokahring CME Group Titleholders

Na Yeon Choi frá Suður-Kóreu leiðir þegar aðeins á eftir að spila lokahringinn á lokamóti LPGA mótaraðarinnar, CME Group Titleholders nú í kvöld.

NY Choi er búin að spila á samtals 12 undir pari, 204 höggum (67 68 69). Á 3. hring sínum á arnarvellinum í Twin Eagles Club í Naples, Flórída fékk Choi 4 fugla og 1 skolla.  Þrátt fyrir þrípútt á 3. holu sem lauk í skolla tókst Choi að varna fleiri mistökum og sökkti m.a. 5 metra fuglapútti á par-3 17. brautinni til þess að ná ein forystunni.

Það er sérstakur hvati þessa vikuna fyrir NY Choi að standa sig vel og helst ná 1. sætinu á Titleholders því hún er að fara að kaupa sér hús í Orlando og sagði í gríni að ef hún sigraði myndi hún e.t.v. kaupa sér stærra hús. Eins hefir hún skipt um golfklúbb og er nú félagi í Isleworth Country Club.

Í 2. sæti er Ai Miyazato, forystukona gærdagsins og fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna, en hún er aðeins 1 höggi á eftir NY.

Í 3. sæti er síðan So Yeon Ryu frá Suður-Kóreu á 10 undir pari, 206 högg (66 72 68).

Til þess að sjá stöðuna eftir 3. dag CME Group Titleholders SMELLIÐ HÉR: