Ha-Neul Kim
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 28. 2013 | 05:00

LPGA: Ha-Neul Kim efst á US Women´s Open eftir 1. dag

Það er Ha-Neul Kim frá Suður-Kóreu, sem leiðir eftir 1. dag US Women´s Open á 6 undir pari, 66 höggum. Þó Ha-Neul sé fremur óþekkt nafn hér á landi, þá er hún það ekki í Suður-Kóreu en þar hefir Ha-Neul verið efst á peningalista KLPGA undanfarin 2 ár og hlaut verðlaun í fyrra fyrir að vera með lægsta meðaltalsskorið.  Aðeins munaði minnstu að hún yrði líka valin leikmaður ársins í Suður-Kóreu, en þar varð hún í 2. sæti.

Ha-Naul hefir látið hafa eftir sér að hana langi ekki í Q-school til þess að komast inn á aðrar mótaraðir, en langi til þess að öðlast keppnisrétt með því að sigra mót, en það er einmitt þannig sem  Jiyai Shin, So Yeon Ryu og Hee Kyung Seo komust á LPGA. Takist Ha-Neul að sigra á US Women´s Open er þessi draumur hennar ekkert svo fjarstæður!

Í 2. sæti á þessu 3. risamóti ársins í kvennagolfinu er landa Kim  Inbee Park, nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna einu höggi á eftir, á 5 undir pari, 67 höggum og IK Kim, Caroline Hedwall, Anna Nordqvist og Lizette Salas  deila 3. sætinu, enn öðru höggi á eftir, þ.e. á 4 undir pari, 68 höggum.

Í 7. sætinu eru tvær fremur nýlegar á LPGA Maude-Aimee Leblanc frá Kanada og Paz Echeveria frá Chile á 3 undir pari, 69 höggum.

Níunda sætinu deila hvorki fleiri né færri en 8 kylfingar þ.á.m. Natalie Gulbis og Jessica Korda,en þær léku allar á 2 undir pari, 70 höggum.

Til þess að sjá stöðuna eftir 1. dag á US Women´s Open SMELLIÐ HÉR: