Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 8. 2013 | 04:30

LPGA: Inbee vann á Kraft Nabisco

Það var nokkuð öruggur sigurinn hjá Inbee Park frá Suður-Kóreu á 1. risamótinu í kvennagolfinu í ár: Kraft Nabisco Championship. Inbee var á samtals 15 undir pari, 273 höggum (70 67 67 69) og fékk $ 300.000 fyrir sigurinn!  Það var því Inbee sem stökk í Poppy Pond árið 2013, en hefð er fyrir því að sigurvegarinn taki dýfu í tjörninni á Rancho Mirage að sigri loknum. Með sigrinum fer Inbee í 2. sæti Rolex-heimslistans.

Inbee Park og fjölskylda (pabbi og kylfuberi) stökkva í Poppy Pond.

Inbee Park og fjölskylda (pabbi og kylfuberi) stökkva í Poppy Pond.

Í 2. sæti á Kraft Nabisco varð landa Park, So Yeon Ryu á samtals 11 höggum undir pari, eða heilum 4 höggum á eftir Park.  Ryu lék á samtals 277 höggum (73 71 68 65).

Þriðja sætinu deildu „voru kære nordiske venner“ Caroline Hedwall frá Svíþjóð og Suzanne Pettersen frá Noregi sem átti 32 ára afmæli í gær, en henni hefir aldrei tekist að sigra í mótinu en hefir þrívegis orðið í 2. sæti! Hedwall og Pettersen voru báðar á samtals 9 undir pari.

Haeji Kang frá Suður-Kóreu og ástralska golfdrottningin Karrie Webb deildu síðan 5. sætinu og voru á samtals 6 undir pari, hvor.

Nokkuð eftirtektarvert var hrun Lizette Salas sem var í 2. sæti fyrir lokahringinn og Jessicu Korda sem deildi 3. sætinu fyrir lokahringinn niður skortöfluna en báðar áttu slæma lokahringi: Salas upp á 79 högg og Korda 76.  Þær voru báðar á samtals 2 undir pari og höfnuðu í 25. sæti sem þær deildu með 5 öðrum kylfingum m.a. hinni ungu Lydiu Ko.  Höggi á eftir þeim varð nr. 1 á heimslistanum Stacy Lewis á samtals 1 undir pari og deildi hún 32. sæti ásamt 8 öðrum kylfingum m.a. NY Choi.

Til þess að sjá úrslitin á Kraft Nabisco Championship SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá hápunkta lokahringsins á Kraft Nabisco Championship SMELLIÐ HÉR: