Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 29. 2013 | 09:00

LPGA: Inbee í forystu

Þegar US Women´s Open mótið er hálfnað hefir nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna, Inbee Park frá Suður-Kóreu tekið forystu.

Hún er búin að spila á samtals 9 undir pari, 135 höggum (67 68) og á 2 högg á þá konu sem næst henni er, löndu sína IK Kim, sem er á samtals 7 undir pari.

Þriðja sætinu deila hin mexíkansk ættaða Bandaríkjakona Lizette Salas, sem enn hefir ekki tekist að sigra á LPGA þrátt fyrir að vera meðal efstu 5 í fjölda móta undanfarið og hin unga, enska Jodi Ewart Shadoff, báðar á 4 undir pari. Það eru því heil 5 högg sem skilja að Inbee og þær sem eru í 3. sæti.

Kóreanska golfstjarnan Ha-Neul Kim sem leiddi eftir 1. dag gekk ekki vel 2. dag mótsins og er komin niður í 9. sætið eftir hring upp á 77 högg.

Nokkrar eiga eftir að ljúka leik en ekki tókst að klára alla hringina í nótt.  Nokkuð ljóst er þó að ýmis þekkt nöfn komast ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni þ.á.m. „norska frænka okkar“ Suzann Pettersen,Beatriz Recari, Jiyai Shin, Belen Mozo og Michelle Wie. 

Til þess að sjá stöðuna þegar US Women´s Open er hálfnað SMELLIÐ HÉR: