Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 18. 2013 | 09:30

LPGA: Ariya leiðir í Hawaii

Thaílenski táningurinn Ariya Jutanugarn var á 8 undir pari, 64 höggum á frekar vindasömum Ko Olina vellinum, í Hawaii þar sem Lotte mótið á LPGA hófst í nótt. Hún er í 1. sæti og á 1 högg á  „norsku frænku okkar” Suzann Pettersen og Hee Kyung Seo eftir 1. hring LPGA Lotte Championship.

Ariya lék fyrri 9 á 6 undir pari, 30 höggum, missti högg á par-4 10. holu með eina skolla hennar á hringnum, fékk örn á par-5 14. holuna og fugl á par-4, 15. holuna.

Eftirminnilegt er þegar Ariyu gafst færi á að vinna fyrsta mót sitt á heimavelli s.l. febrúar á LPGA Thailand, en stóðst ekki álagið á síðustu holunni, þar sem hún fékk snjókerlingu, þ.e. 8 högg (á par-5 holu) og færði núverandi nr. 1 á heimslistanum, Inbee Park sigurinn á silfurfati.  Ariya kom hins vegar sterk tilbaka 3 vikum síðar þegar hún vann fyrsta titil sinn sem atvinnumanns á Lalla Meryem Cup, í Marokkó.

Pettersen var með 9 fugla og 2 skolla. Hún hefir 10 sinnum sigrað á LET og vann mót fyrr á árinu í Kína. „Ég fór út í dag og reyndi að vera virkilega aggressív,” sagði Pettersen, sem varð T-3 á Kraft Nabisco Championship, þ.e. fyrsta risamótinu í kvennagolfinu á árinu.  „Pabbi varð fyrir svo miklum vonbrigðum með mig á Kraft, vegna þess að ég kláraði ekki stuttu púttin.  Hann sagði: „Þú verður að drífa að holunni ef þú ætlar að setja púttin niður.“

Seo, sem vann Kia Classic 2010 átti skollalausan hring.

Hyo Joo Kim, 17 ára frá Suður-Kóreu sem spilaði með Airyu og hinni 15 ára Lydiu Ko var á sama skori og bandaríski kylfingurinn Danielle Kang, 66 höggum.

Ko var með skor upp á 71 högg. Hún var m.a. sigurvegari á Canadian Open s.l. ágúst og varð þar með yngsti sigurvegari á LPGA Tour, 15 ára, 4 mánaða og 2 daga.

Ko er með 2 aðra sigra á atvinnumannamótum í beltinu: hún sigraði á New South Wales Open á síðasta ári og New Zealand Women’s Open á þessu ári og vann U.S. Women’s Amateur síðasta keppnistímabil.

Nr. 2 á Rolex heimslista kvenna, bandaríski kylfingurinn Stacy Lewis, sem sigraði á 2 mótum í röð á þessu ári í Singapore og Phoenix var 3 höggum á eftir forystunni á 67 höggum ásamt þeim Ai Miyazato frá Japan, sem á titil að verja, Beatriz Recari, So Yeon Ryu, Jane Park, Rebeccu Lee-Bentram, Jane Rah og Gerinu Piller.

Recari vaar í holli með Suzanne Pettersen og Angelu Stanford og byrjaði glæsilega, fékk 4 fugla á fyrstu 6 holurnar.

„Við byrjuðum kl. 7:50 (17:50 í gær) og það var þegar orðið hvasst sérstaklega á seinni 9,” sagði Recari. „Þessar holur eru svo opnar út á sjó.  Þannig að þetta var mikil áskorun þarna úti.”  Recari vann Kia Classic í síðasta mánuði og var það 2. sigur hennar á LPGA .

„Það er þannig að þegar maður sigrar vill maður halda áfram að sigra,” sagði Recari. „Ég vil ekkert bara halla mér aftur og slaka á og bara rúnta um völlinn. Augljóslega vill maður koma sér í sigurstöðu aftur og vonandi vinn ég fleiri bikara.”

Kanadíski kylfingurinn Lee-Bentram fékk 9 pör í röð og síðan fékk hún fugl á næstu fimm af 7 holum á skollalausum hring sínum.

„Ég sagði bara við sjálfa mig að vera þolinmóð,” sagði Lee-Bentram. „Púttin voru ekki að detta á fyrri 9 og ég var bara með pör. Ég vissi að ef ég héldi áfram að para myndu fuglarnir koma. Og það gerðist.”

Eldri systir Ariyu, Moriya er líka í mótinu og hún spilaði á 69 höggum.

Nr. 1 á Rolex heimslistanum Inbee Park, sigurvegari 1. risamóts ársins í kvennagolfinu var meðal hóps kvenkylfinga sem voru á 70 högum, en þar gaf m.a. að finna uppáhald heimamanna, Michelle Wie og Natalie Gulbis, sem nú tekur þátt í 2. móti sínu eftir að hafa jafnað sig á malaríu.

Fyrrum nr. 1 á heimslistanum, Yani Tseng, sem ekki hefir sigrað á móti í yfir ár var líkt og Lydia Ko á 71 höggi.

Til þess að sjá stöðuna á LPGA Lotte Championship eftir 1. dag í Hawaii SMELLIÐ HÉR: