Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 22. 2014 | 10:00

LPGA: Amy Yang og Michelle Wie efstar og jafnar fyrir lokahring Opna bandaríska

Amy Yang frá Suður-Kóreu læddi sér upp við hlið Michelle Wie í toppsætið á Opna bandaríska kvenmeistaramótinu, fyrir lokahringinn, sem fram fer á Pinehurst nr. 2 í Pinehurst, Norður-Karólínu, í dag.

Báðar eru þær búnar að spila á samtals 2 undir pari; Yang (71 69 68) og Wie (68 68 72).

Með glæsihringnum í gær náði  Yang að vinna upp 3 högga forystu sem Michelle Wie hafði.

Það stefnir í einvígi þeirra í kvöld og stóra spurningin hvort stundin sé runnin upp að ekki sé hægt að segja lengur um Wie að hún sé besti kvenkylfingur, sem aldrei hafi unnið á risamóti?

Yang og Wie hafa 4 högga forystu á 4 kylfinga sem deila 3.-6. sæti en þeirra á meðal er hin 53 ára Juli Inkster, sem tvívegis áður hefir sigrað á Opna bandaríska (1999, 2002). Hinar í 3.-6. sætinu eru hin ástralska Minjee Lee, enska stúlkan Stephanie Meadow og Na Yeon Choi, frá Suður-Kóreu.

Til þess að fylgjast með stöðunni á Opna bandaríska SMELLIÐ HÉR: