Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 25. 2013 | 17:00

LPGA: Ai Miyazato, Paula Creamer og Suzanne Pettersen lentu í árekstri í Thaílandi

„Norska frænka okkar“ Suzanne Pettersen, Paula Creamer og Ai Miyazato, þrjár af bestu kvenkylfingum heims og fylgdarlið þeirra, þ.á.m. mamma Pettersen, lentu í árektstri 5 bíla í gær þegar þær voru á leið út á völl eftir lokahring sinn á Honda LPGA Classic, í Chonburi á Thaílandi.

Í bloggi á vefsíðu sinni sem sjá má með því að smella hér á feitletruðu/undirstrikuðu orðin  skrifaði Pettersen m.a. að bílarnir sem þær voru í hefðu verið á miklum hraða. Pettersen var í 5. og síðasta bílnum og sagðist hafa forðað því að fleiri klesstust á.

Pettersen bætti við að Paulu Creamer hefði fundist hún vera eins og „borðtennisbolti sem hefði fengið högg frá báðum hliðum“ en hún var í miðbílnum og að hún og Ai Miyazato „væru aumar í hnakkanum,“ þ.e. með svokölluð whip-lash einkenni.

Pettersen skrifaði m.a. að þetta hefði verið „miðlungs vika með ógnvænlegum endi.“ (ens.: average week with a scary ending) en Pettersen og Miyazato urðu T-21 á Honda Classic mótinu og Paula Creamer T-33.

Sem betur fer meiddist engin alvarlega skrifar Pettersen og þær þrjár tóku bíl saman út á flugvöll til að ná flugvél til Singapore, en þær taka þátt í næsta móti LPGA þ.e. móti vikunnar: HSBC Women’s Champions.