Ragnheiður Jónsdóttir | september. 14. 2012 | 17:55

LET & LPGA: Hætt við leik í dag á Ricoh Women´s British Open vegna hvassviðris – spila á 2. hring á morgun

Það voru alls 36 kylfingar sem voru búnar að skila skorkortum sínum þegar ákvörðun var tekin að hætta leik í dag á Ricoh Women´s British Open á Royal Liverpool golfvellinum í Hoylake vegna hvassviðris.

Annar hringur verður þess í stað spilaður á morgun og að honum loknum skorið niður í 50 kylfinga + þá sem eru jafnir í 50. sæti, en ekki 65 og þær sem jafnar eru í 65. sæti eins og ráð var fyrir gert.

Þær 50 sem komast í gegnum niðurskurð af þeim 144 sem upphaflega hófu leik munu síðan spila 36 holur á sunnudeginum.

Michelle Wie, er ein af hæstu stúlkunum sem þátt tekur í Ricoh Women´s Britsh Open. Hún grínaðist með hæð sína í dag: „Ég held að  í dag sé  gott að vera lágvxin, vegna þess að mér leið eins og flaggstöng hér úti,“ sagði hún og hló. „Mér fannst ég ógnarlöng og boltinn minn var út um allt.“

Suzann Pettersen sagði: „Ég held að frá sjónarmiði leikmanna hafi ekki verið hægt að komast að annari niðurstöðu (en að fresta leik). Þetta voru ekki ósanngjörn skilyrði til leiks, það var einfaldlega ekki hægt að spila.“