Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 31. 2018 | 08:00

LET: Mel Reid fær grænt ljós frá læknum – er með í Ástralíu – tjáir sig um jafnræði í verðlaunafé á við karla í golfi

Mel Reid hóf keppnistímabilið 2017 á fullkominn hátt með sigri á Oates Vic Open  fyrir 12 mánuðum síðan, en síðan þá hefir hún þjáðst af bakverkjum.

Eftir vikur af endurhæfingu og óvissu um hvort hún myndi geta keppt gáfu læknar henni loks grænt ljós … og Reid má ferðast til Ástralíu.

Í viðtali nú á þriðjudaginn sagði hún: „Í hvert sinn sem maður er að verja titil þá er það mjög, mjög næs. Þetta var svo sannarlega ein af uppáhalds vikum mínum á sl. ári og þarna vil ég hefja 2018 keppnistímabil mitt. Mér líkar við golfvöllinn.“

Reid sagði í sama viðtali hafa meiðst við heimilisstörf. „Það er ástæðan fyrir að ég ætti ekki að vinna heimilisstörf. Ég var að taka eitthvað úr uppþvottavélinni, þannig að ég get ekkert gert þetta.  Hryggþófi minn rifnaði og ég spilaði þannig allt keppnistímabilið, sem var í lagi. Þetta greri af sjálfu sér, en síðan endurtók sig allt aftur í september. Þetta var hryggþófarifnun og ég hefði líklegast ekkert átt að spila frá september og eftir það en ég gerði það samt, sem voru mistök. Eðlishvötin sagði mér að spila ekki en ég hélt áfram og skemmdi þófann svolítið, þannig að ég hefði ekki átt að gera það. Meginmarkmið mitt í vetur var að ná heilsu og ég fékk ekki að vita að ég væri orðin frísk fyrir, hvað, tveimur dögum, þannig að ég bókaði flugið mitt ekki fyrr en á fimmtudaginn. Ég hef ekki slegið mikið af golfboltum, þannig að það gæti verið gott eða slæmt. Ég er ekki viss.

Markmið mitt í vetur var að komast í gott form og ná heilsu og mér hefir tekist það svona u.þ.b. 75-80%. Ég er ekki með gríðarlegar væntingar í þessari viku, en ég myndi svo sannarlega vilja sjá sjálfa mig spila til sigurs.“

Burt séð frá frábærum minningum og framúrskarandi golfvelli þá er önnur mikilvæg ástæða þess að snúa aftur í mótið einstakt keppnisfyrirkomulag þar sem spilað er til skiptis við karlana á Vic Open og verðlaunafénu milli karla og kvenna er deilt.

Það er mikil jafnræðisumræða í gangi þessa stundina um allan heim og verðlaunaféð sem karlarnir fá á PGA er augljóslega miklu hærra en á LPGA. Mér finnst það ekki viðunandi þannig að það er gott að vera með mót þar sem jafnræði ríkir,“ sagði Reid loks. „Það er frábært fyrir stelpurnar og frábær auglýsing fyrir okkur. Ég vona að strákarnir njóti þess líka að vera með okkur. Fyrir mína parta mættu vera fleiri svona mót í svona umgjörð. Ég hugsa að það væri æðislegt fyrir golfið.“

Hin 30 ára Mel (Reid) frá Derby hefur 2018 kepnistímabilið á Creek vellinum kl. 12:20 að staðartíma n.k. fimmtudag og hún verður í ráshóp með öðrum fyrrum sigurvegurum mótsins, þeim Minjee Lee og norsku frænku okkar Mariönnu Skarpnord.