Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 9. 2013 | 11:00

LET: Inbee Park enn í forystu fyrir lokahring World Ladies Championship – Suzann Pettersen í 2. sæti!

Það er Inbee Park sem er enn í forystu fyrir lokahring World Ladies Championship í Haikou í Hainan í Kína, þar sem mótið fer fram á Sandbelt Trails golfvellinum.

Park er búin að spila á samtals 14 undir pari 202 höggum (68 65 69). Í dag var hún með 5 fugla, 11 pör og 2 skolla.

Í 2. sæti er norska frænka okkar Suzann Pettersen, en hún var á lægsta skorinu í dag ásamt hinni ítölsku Stefania Croce, 67 höggum, skilaði „hreinu“ skorkorti með 5 fuglum á og 13 pörum.  Samtals er Pettersen búin að spila á 12 undir pari 204 höggum (70 67 67) og saxar hægt og bítandi á skor Park.

Í 3. sæti er Soo Yin Yang frá Suður-Kóreu á samtals 10 undir pari og í 4. sæti er hin spænska Carlota Ciganda á samtals 8 undir pari.

Fjórir kylfingar deila loks 5. sætinu m.a. hin thaílenska Ariyja Jutanugarn á samtals 7 undir pari.

Lokahringurinn fer fram á morgun og spennandi að sjá hver stendur uppi sem sigurvegari, en sem stendur eru Inbee Park og Suzann Pettersen líklegastar!

Til þess að sjá stöðuna eftir 3. dag World Ladies Championship SMELLIÐ HÉR: