Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 14. 2013 | 09:15

Laura Diaz útnefnd varafyrirliði bandaríska liðsins í Solheim Cup

Laura Diaz var í gær útnefnd varafyrirliði bandaríska Solheim Cup liðsins, en hún og Dottie Pepper eru nú varafyrirliðar undir forystu fyrirliðans Meg Mallon.

Diaz og Dottie Pepper hafa löngum eldað grátt silfur saman en talið var að til vinslita hefði komið milli þeirra eftir óheppilega athugasemd þeirra síðarnefndu, þegar hún gegndi stöðu íþróttafréttamanns og var að lýsa keppni sem Diaz tók þátt í.

Diaz á hinn bóginn var fremst í flokki þeirra sem gangrýndu Pepper þegar hún vísaði til leikmanna bandaríska Solheim Cup liðsins 2007 sem „choking freakin dogs“ (útleggst á íslensku eitthvað á þá leið að þær væru „helvítis hundar, sem væru að missa sig/tökin á leiknum eða fara í kerfið“) í beinni útsendingu á Golf Channel. Reyndar ætlaði Pepper athugasemdinni aldrei að koma fyrir almenningseyru, en hún taldi að ekki heyrðist til hennar vegna þess að hún hélt að útsendingarhlé væri vegna auglýsinga. Diaz og Sherri Steinhauer höfðu aðeins náð hálfum vinningi í leik sínum þegar Steinhauer missti 1 meters pútt á 18. flöt.

„Ég hugsa að meðal flestra vina séu orð látin falla sem fólki líkar ekki við,“ sagði Diaz á LPGA Founders Cup. „Stundum tekur aðeins lengri tíma að jafna sig á þeim og stundum tekur það langan tíma ….. við erum báðar mjög ástríðufullar þegar kemur að Solheim Cup.“

„Við Dottie höfum farið í gegnum ýmsilegt og deilt ýmsu. Ég hef þekkt Dottie frá því ég var 10 ára, þannig að það kemur aðeins meira til heldur en það sem hún sagði sem íþróttafréttamaður. Ég vil trúa því að hún hafi spilað leikinn með mér og hafi fundið það sem ég fann og orðin hafi bara dottið úr henni, þetta voru eftir allt bara orð.“

Pepper endurtók að hún hafi haldið að hún væri ekki í útsendingu þegar hún lét orðin falla. „Ég gerði ein alvarleg mistök“ sagði Pepper. „Ég sagði þetta í beinni.“

Mallon telur að þessir eldfimu aðstoðarfyrirliðar hennar smellpassi saman. „Ef þær eru ánægðar og við erum ánægð þá er ég ánægð,“ sagði Mallon.  „Þær elska þessa keppni (Solheim Cup) og ættu að vera saman að njóta hennar, þannig að ég er ánægð.“

„Þetta er mesti heiður ferils míns,“ sagði Diaz um útnefninguna. „Þegar Meg bað mig að taka aðstoðarfyrirliðastöðuna að mér, var ég hissa og sjokkeruð.“

Fyrirliði Solheim Cup liðs Evrópu er Liselotte Neumann og aðstoðarfyrirliðar hennar eru engar aðrar en Annika Sörenstam og Carin Koch.