Úlfar Jónsson, fv. landsliðsþjálfari í golfi. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 26. 2014 | 08:00

Landsliðsþjálfarinn heimsækir Norðurlandsúrvalið

Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari og Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur, heimsóttu efnilega kylfinga á Norðurlandi síðastliðna helgi. Tilgangur ferðarinnar var m.a að eiga fund með þjálfurum og forsvarsmönnum golfklúbba á Norðurlandi til að ræða uppbyggingarstarf og stefnumótun Golfsambandsins sem kynnt var á seinasta golfþingi. Í kjölfarið var fyrirlestur fyrir unga kylfinga á Norðurlandi um afreksstefnu sambandsins. Birgir Leifur sagði krökkunum frá sinni reynslu, allt frá fyrstu skrefunum á Akranesi og til dagsins í dag sem atvinnumaður.

Úlfar og Birgir Leifur í inniaðstöðunni á Akureyri

Úlfar og Birgir Leifur í inniaðstöðunni á Akureyri (í bláum peysum)

Æfing var morguninn eftir með Norðurlandsúrvalinu, sem skipað er efnilegustu kylfingum norðurlands 18 ára og yngri. Heiðar Davíð Bragason PGA kennari Golfklúbbsins Hamars á Dalvík fer með umsjón hópsins, en einnig var þjálfari Golfklúbbs Akureyrar, Brian Jensen, til aðstoðar á æfingunni. Einnig var opin æfing fyrir unga kylfinga á Norðurlandi í inniaðstöðu GA.

Að sögn Úlfars þá er ljóst að mjög góður efniviður er til staðar á Norðurlandi, en það sem jafnvel enn meira máli skiptir er að vel er haldið um hlutina með metnaðarfullu starfi vel menntaðra PGA kennara og góðs stuðnings stjórna golfklúbbanna, sem skilja mikilvægi þess að hlúa vel að barna-, unglinga- og afreksstarfi. „Aðstaða til æfinga yfir vetrartímann er einstaklega góð, bæði á Dalvík og Akureyri. Mér er óhætt að segja að inniaðstaða Akureyringa sé sú besta á landinu, en þeir notast við Trackman höggsjána, sem flestir atvinnumenn í stærstu mótaröðum notast við til að fá upplýsingar um boltaflugið, sveifluferil ofl.  Þegar veturinn er þetta langur eins og við þekkjum þá skiptir miklu máli að aðstaða sé góð til að æfa stutta spilið og einnig geta notast við nýjustu tækni til að gera sveifluæfingar markvissari og skemmtilegri.

Heimsóknin heppnaðist mjög vel og var gaman að sjá hversu gott starf er unnið á þessu svæði og hversu mikill áhugi er hjá krökkunum. Það var auðséð að þeim þótti mikið til þess koma að hitta Birgi Leif, sem miðlaði af sinni reynslu til þeirra. Aðkoma hans að landsliðsmálum og útbreiðslustarfinu er mikil og góð innspýting í starf GSÍ.

Úlfar, Birgir Leifur og Norðurlandsúrvalið

Úlfar, Norðurlandsúrvalið og Birgir Leifur

Hópmynd, frá vinstri: Úlfar, Heiðar Davíð, Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, Ólöf María Einarsdóttir, Birta Dís Jónsdóttir, Tumi Hrafn Kúld, Þorgeir Sigurbjörnsson, Kristján Benedikt Sveinsson, Víðir Steinar Tómasson, Eyþór Hrafnar Ketilsson, Arnór Snær Guðmundsson, Birgir Leifur. Fyrir framan, Brian Jensen.