Ragnheiður Jónsdóttir | október. 11. 2011 | 11:00

Kvikmynd um unglingsár Seve Ballesteros væntanleg

Seve Ballesteros var einn af bestu kylfingum okkar tíma, en mikið af ungu kynslóðinni í dag veit ekkert um Spánverjann með sterka persónuleikann nema kannski af myndböndum og bókum. Fæstir vita nokkuð um uppvaxtarár Seve, sem ólst upp í sárustu fátækt, kvæntist inn í eina ríkustu ætt Spánar, vann hvern sigurinn á fætur öðrum í golfheiminum þ.á.m. 5 risamót, kom  Spán ef ekki Evrópu á blað í golfinu, skildi við konu sína, þjáðist af bakverk, sem varð til þess að hann dró úr keppnisgolfinu og  barðist að lokum (frá árinu 2008) við heilaæxli, sem bar hann ofurliði 7. maí á þessu ári.

Nú hefir hinn margverðlaunaði Stephen Evans hafið undirbúning að gerð kvikmyndar um uppvaxtarár Seve.  „Við fjöllum um unglingsár hans sérstaklega frá 16 -19 ára aldurs,” sagði Evans. „Þið munuð aldrei skilja Ballesteros og munuð aldrei finna til þeirrar samkenndar með honum sem hann á skilið nema þið þekkið æsku hans,” sagði Evans, en leit er hafin að leikurum, sem líkjast Ballesteros þegar hann var 16-19 ára.

Við hér á Golf 1 stingum upp á hinum unga Matteo Manassero í hlutverkið – hann hefir útlitið og bæði gæti hann leikið golfsenurnar glimrandi og svo er hann sjálfur mikill aðdáandi Seve ,  (sbr. greinaflokk um MM, sem birtist hefir hér á Golf 1 undir heitinu: ungi, ítalski ástríðukylfingurinn – en síðasta greinin af 5 um MM fer í birtingu í kvöld).