Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 8. 2013 | 10:00

Jumeirah Group endurnýjar ekki samninga við Rory McIlroy

Jumeirah Group hefir tilkynnt að styrktarsamningur þess til 5 ára við nr. 1 á heimslistanum í golfi, Rory McIlroy verði ekki endurnýjaður.

Þetta hefir valdið því að sögusagnir um að Rory sé að fara að undirrita samning við Nike í næstu viku hafa fengið byr undir báða vængi.

Jumeirah lúxus-hótelkeðjan, með starfsstöð í Sameinuðu arabísku furstadæmunum undirritaði samning til 5 ára við McIlroy þegar hann var 18 ára og var eitt af fyrstu fyrirtækjunum til þess að styrkja hann.

Tilkynningin staðfestir að McIlroy sé laus allra mála og geti heilshugar undirritað samning við Nike og talið er að hann hljóti  $20 milljónir fyrir á ári.

Með þessu myndi Nike hafa innanborðs tvær af mestu stjörnum í golfheiminum Rory og Tiger, en sá síðarnefndi hefir verið á samningi hjá Nike frá því hann gerðist atvinnumaður, 1996.