Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 25. 2012 | 16:40

Íslandsmótið í höggleik: Stefán Már Stefánsson: „Þetta verður mikill slagur“

Íslandsmótið í höggleik hefst á morgun á Strandarvelli á 60. afmælisári GHR  Af því tilefni tók Golf1 eftirfarandi stutt viðtal við Stefán Má Stefánsson, GR, sem spilað hefir í allt ár á EPD-mótaröðinni þýsku, í Marokkó, Tyrklandi og nú undanfarið í Þýskalandi. Hann er einn 150 þátttakenda í mótinu.

Golf 1: Hvernig leggst Íslandsmótið í höggleik í þig?

Stefán Már:  Það leggst mjög vel í mig , ég hef verið að spila vel og það verður gaman að takast á við þetta mót.

Golf 1: Hvernig er Íslandsmótið í höggleik frábrugðið mótum á EPD-mótaröðinni?

Stefán Már: Það er í rauninni ekkert frabrugðið. Það er svipað, einum hring meira, en í rauninni eru flest mót eins.  Ef það er eitthvað þá eru fleiri betri  spilarar erlendis – en við erum með fullt mót heima og helling af sterkum kylfingum.  Þetta verður mikill slagur.

Golf 1: Hvernig finnst þér Strandarvöllur?

Stefán Már: Ég þekki Strandarvöll vel. Ég spilaði hann á mánudag og spilaði í Pro-Am hlutanum. Völlurinn hefur sjaldan litið betur út. Röffið hefur vaxið mikið og það hefur klárlega mikið að segja í mótinu. Það verður að halda boltanum í leik.

Golf 1: Hvað er orðið langt síðan að GR-ingur vann Íslandsmótið í höggleik í karlaflokki?

Stefán Már: GR-ingur hefur ekki unnið mótið í karlaflokki frá því árið sem ég fæddist 1985, en þá vann Sigurður Pétursson.

Golf1: Er ekki orðin mikil pressa að GR-ingur vinni mótið og hverjar telur þú líkurnar á að GR-ingur standi uppi sem Íslandsmeistari í höggleik?

Stefán Már: Við erum með fjölmarga góða kylfinga í meistaraflokki og ég hef fulla trú á að við GR-ingar getum sigrað.  Ég fer með því hugarfari að sigra þetta mót.

Golf 1: Hvað þarf til, til þess að sigra á Íslandsmóti, að þínu mati?

Stefán Már:  Aðallega að hafa trú á að maður geti unnið sjálfur, hafa getu í það og svo er margt sem spilar inn í, en að vera með gott leikplan er númer 1, 2 og.3.

Golf 1: Finnst þér að bæta mætti úr einhverjum atriðum á Íslandsmótum í höggleik hér á landi og ef svo er hverjum?

Stefán Már: Mótið er komið á það stig að það er 4 daga mót og niðurskurður eftir 2 daga. Það er ekkert hægt að setja út á það.  Það hefur verið lögð 100% vinna í verkið nú og mér finnst að á undanförnum árum hafi verið vel að öllum mótum staðið.