Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 26. 2012 | 19:45

Íslandsmótið í höggleik – Óskar Pálsson: „GHR – þetta er samheldinn hörkuklúbbur“

Íslandsmótið í höggleik hófst í dag á Strandarvelli hjá Golfklúbbi Hellu, sem fagnar 60 ára afmæli um þessar mundir. Golf 1 tók örstutt viðtal við Óskar Pálsson, formann GHR:

Golf 1: Nú verður að telja mikið þrekvirki fyrir lítinn klúbb sem telur 138 félagsmenn að standa fyrir einu stærsta móti ársins á Íslandi, Íslandsmótinu í höggleik – hvernig farið þið að þessu?

 Óskar:  Klúbburinn gerir þetta –  þetta er bara samheldinn hörkuklúbbur, sem hefir á að skipa frábærum félagsmönnum. Ég varð samt feginn þegar þetta hófst allt saman í morgun, þá var engu sem hægt var að bæta við.

Golf1: Hafið þið aðstöðu til þess að taka á móti miklum fjölda áhorfenda á Íslandsmótið?

Óskar: Við höfum 18 holu völl og alla Rangárvellina og við erum með stærsta bílastæði í heimi. Við getum tekið við ótrúlega mörgum bílum. 

Golf1: Nú hafa þátttakendur í Íslandsmótinu verið að hrósa Strandarvelli, sem skemmtilegum, með góðar flatir en jafnframt erfiðum, sérstaklega vegna kargans – Er eitthvað sérstakt sem gert var við völlinn fyrir mótið?

Óskar:  Við vökvuðum greenin í 4 tíma á dag í ca 2 mánuði fyrir mót. Að öðru leyti erum við búin að undirbúa þetta í 2 ár. Eins höfum við ekkert slegið kargann.

Golf 1: Nú þekkir þú Strandarvöll betur en flestir – hvað telur þú að þurfti til þess að sigra á Íslandsmótinu í höggleik á Strandarvelli?

Óskar: Það þarf að spila 2-4 undir pari, ég tel að með 16 undir þá sé maður öruggur  með sigur. Strandarvöllur er dæmigerður linksari, þar sem  þarf að hafa mikið vald á boltanum kringum greenin. Sá sem er bestur í stutta spilinu vinnur. Erum með sakleysislegar en ótrúlega lúmskar flatir og lúmsk brot víða. Síðan verður maður að vera á braut, hitta flatirnar – þá skorar maður vel. – Karginn er orðinn meiri en vanalega það má ekki fara út í hann. Það er hægt að tapa mjög mörgum höggum, hvort heldur er í karga eða sandi á vellinum.

Golf 1: GHR á 60 ára afmæli. Var haldið með einhverjum sérstökum hætti upp á stórafmælið?

Óskar: Við erum búin að því; við félagarnir í klúbbnum.

Golf1:  Hvað er þér minnisstæðast úr starfinu og veru þinni í GHR?

Óskar:  Kvöldið sem ég varð formaður. Þá hugsaði ég: „Hvað hef ég komið mér í núna?”

Golf 1: Sérðu eftir einhverju sem formaður? 

Óskar: Nei, þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og ég sé ekki eftir neinu.

Golf1: Hvað hefir þú lengi gengt stöðu formanns GHR og einhvers staðar heyrði ég að þú hefðir oftast orðið klúbbmeistari. Hversu oft hefir þú orðið klúbbmeistar GHR?

Óskar:  Ég hef verið formaður í 12 ár og orðið klúbbmeistari 21 eða 22 sinnum.