Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 3. 2013 | 19:00

Íslandsbankamótaröðin (2): GR-ingar fengu flest verðlaunasæti

Í gær lauk 2. móti á Íslandsbankamótaröðinni á Strandarvelli, Hellu.

Þátttakendur að þessu sinni voru 129 þar af 35 í kvennaflokki.   Keppendur voru fjölmennastir úr GR eða 30 talsins, 28 úr GKG,  24 voru úr GK, 9 úr GKJ, 7 úr GHD, 6 úr GS, 5 úr GL, 4 úr GO, 3 úr GA, GOS og NK, 2 úr GHG og GSS og síðan 1 úr GB, GHR og GSG.

Unglingarnir sýndu að venju glæsitilþrif og stendur þar upp úr glæsilegt vallarmet Fannars Inga Steingrímssonar, GHG, á Strandarvelli af gulum upp á 9 undir pari, 61 högg. Fannar Ingi sigraði jafnframt á mótinu vegna ótrúlega flotts lokahrings, þar sem hann fékk 8 fugla 1 skolla og fór þar að auki holu í höggi í fyrsta sinn á ferlinum.

En fleiri héldu uppi stemmningu og spennu og þar ber helst að nefna þá Ingvar Andra Magnússon, GR og Kristján Benedikt Sveinsson, GHD, sem báðir voru efstir og jafnir á 8 yfir pari, hvor eftir 36 holur.  Því kom til bráðabana milli þeirra þar sem Ingvar Andri sigraði á 2. holu.

Af kvenþátttakendum mótsins voru þær Ragnhildur Kristinsdóttir, GR í telpnaflokki og Gunnhildur Kristjánsdóttir, GKG, í stúlknaflokki á besta skorinu, báðar á samtals 9 yfir pari, 149 höggum.

Ef aðeins eru teknir þeir sem lönduðu 3 efstu sætunum í sínum flokki sést að  GR á flesta unglinga í verðlaunasætum að þessu sinni eða 6, GKG 5,   GHD 4 , GK 2 og GHG 1.   Ef bara eru tekin verðlaunasætin 6 (þ.e. 1. sætið) fara líka flest til GR eða 3 (þ.e. Ragnhildur Kristinsdóttir, Ingvar Andri Magnússon og Gerður Hrönn Ragnarsdóttir voru sigurvegararnir fyrir GR) , tvö til GKG og eitt til sigurvegarans í GHG.

Athygli vekur að það eru bara  Birgir Björn Magnússon og Sara Margrét Hinriksdóttir sem eru í verðlaunasætum fyrir GK en Keiliskrökkunum hefir oft gengið betur.

Að sama skapi vekur einnig athygli áframhaldandi gott gengi Dalvíkur-krakkanna en þau eru í 3. sæti yfir flest verðlaunasæti!  Þar fremst í flokki eru auðvitað Arnór Snær Guðmundsson, Kristján Benedikt Sveinsson, Ólöf María Jónsdóttir og Birta Dís Jónsdóttir.