Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 10. 2018 | 14:00

Ilmur Anniku

Þann 9. febrúar 2010 skrifaði ritstjóri Golf 1 grein á iGolf vefinn sem bar heitið „Ilmurinn hennar Anniku“ og má rifja greinina upp hér:
„Annika Sörenstam, einn fremsti kvenkylfingur allra tíma, hefur sett á markað nýtt ilmvatn, sem ber nafn hennar: Annika.

Hvernig sem á því stendur kom bókin “Ilmurinn – saga af morðingja” fyrst upp í hugann þegar ilm Anniku bar fyrir vitin.
Margir hafa séð kvikmyndina, sem byggð er á þessari metsölubók Patrick Süskind. Þar segir frá Jean-Baptiste Grenouille, sem fæðist undir fisksöluborði í París. Nöturleg koma hans í heiminn er aðeins upphafið á ömurlegri og einangraðri æsku og fullorðinsárum, þar sem hann er útskúfaður úr mannlegu samfélagi. En Jean-Baptiste, sem ber enga líkamslykt sjálfur er gæddur yfirskilvitlegu lyktarskyni. Það verður honum til bjargar að fá starf hjá ilmvatnsgerðarmeistara, þar sem hann skarar fram úr í frumleika við ilmvatnsgerð. Hugfangnastur er hann þó af þeirri lykt sem má vinna úr mannslíkamanum. Hann einsetur sér að endurskapa ilminn sem ungar meyjar bera til að vinna sjálfur ást og hylli. En til þess þarf hann að myrða þær. Bókin og kvikmyndin sýna síðan hvernig glæpur er framinn vegna draums um ást. Ilmurinn, sem Jean-Baptiste tekst að framleiða vegna glæpa sinna, er nefnilega þeim eiginleikum búinn að laða fram tilfinningu ástar.

… og þarna kemur tengingin. Tilfinning ástar kemur upp um leið og ilm Anniku ber fyrir vitin, enda næstum eins og hér sé komin “lykt af golfi”, ef svo mætti að orði komast… en hún hefir hingað til ekki verið skilgreind. Hvernig lyktar golf?

Ilmur Anniku er auglýstur sem “elegant og ástríðufullur”. Ef lýsa ætti honum nánar þá er hann nokkuð þungur, kryddaður, austrænn, en þó jafnframt eins og blómvöndur, enda fannst iGolf, sem gengið væri inn í blómabúð, þegar ilmurinn barst fyrst fyrir vitin. Þetta er náttúrulegur ilmur, ilmur af grasi, greenum, röffi, trjáberki og blómum. Það er sem veðrabrigðin öll, sem finna má úti á golfvelli séu í einu glasi, lykt af sól, rigningu, stormi og snjó – öllu hrært saman í ferskan ilm.
Í Anniku ilmvatninu er að finna ilm hvítra blóma, sítrusviðs og vanillu. Jafnframt minnir ilmurinn nokkuð á Poison ilmvatnið frá Dior, enda ekki skrítið því þegar nánar er að gáð er uppistaðan ambra í báðum ilmum. Golfið getur líka verið hálfgert “poison” ef út í það er farið, því sjálfur Tiger Woods sagði eitt sinn að hann væri “algerlega forfallinn í þennan leik (golfið), þetta (væri) eins og dóp, sem (hann bara yrði) að fá.”

Eftir nokkrar tilraunir með ilmvatnið er iGolf ekki frá því að ilmurinn bæti jafnvel skorið úti á golfvelli, enda detta fuglar nú af 20 metra færi eins og aldrei áður – skyldi þetta vera ilmur golftöfra?
Loks er gott til þess að vita að ekki þarf að myrða fyrir ilmvatn Anniku, eins og Jean-Baptiste gerði, glas af því kostar u.þ.b. kr. 14.000,-„