Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 31. 2013 | 23:00

„I have a dream“

Nú í vikunni, nánar tiltekið þann 28. ágúst s.l. voru nákvæmlega 50 ár síðan að Martin Luther King sagði þessi sögufrægu orð, sem fleyg eru orðin í ræðumennsku: „I have a dream“ eða „Ég á mér draum.“

Þótt ótrúlegt sé þá tók  þessi fræga ræða MLK aðeins undir 17 mínútum í flutningi, hún var 1651 orð og MLK var aðeins 34 ára.

Erindi ræðunnar á samt þá sem nú, 50 árum síðar, erindi við okkur.

MLK átti sér þann draum að öllu kynþátta- sem annarri mismunun og misrétti yrði eytt í heiminum.

Hvaða erindi á ræða sem þessi í golfi?

Jú, ef við hugsum okkur um, þá er misréttið í golfinu, sem oft er eins og spegill af samfélaginu grasserandi og oft erum við orðin svo vön því að við leiðum ekki hugann að því.

Hvaða réttlæti er í því að verðlaunafé karlkylfinga sé allt að því 10falt hærra en kvenkylfinga á stærstu mótaröðum heims?

Hvaða réttlæti er í því að sumir sögufrægustu golfklúbbarnir s.s. The Royal and Ancient Golf Club of St Andrews leyfi ekki konum að gerast félagsmenn?

Jafnvel nr. 1 á heimslistanum (kynþáttabróðir MLK) verður fyrir aðkasti enn þann dag í dag vegna litarháttar síns (sbr. t.a.m. ósmekkleg orð sem fyrrum kylfusveinn Tiger, Steve Williams lét falla um Tiger eftir að Tiger rak hann árið 2011. Eftirfarandi grein Golf 1 var birt 5. nóvember 2011 um málið:

„Steve Williams, fyrrum kylfuberi Tiger Woods er aftur í fréttum vegna meiðandi ummæla um fyrrum vinnuveitanda sinn, sem talin eru fela í sér kynþáttafordóma.

Ummælin voru látin falla í árlegum kvöldverði kylfubera í gærkvöldi á Le Meridien Sheshan hotel, þar sem Williams var að taka við verðlaunum fyrir kaddýstörf.

Skv. upplýsingum dagblaðsins Telegraph var Steve Williams með míkrófón í hendi upp á sviði og spurður af hverju hann hefði fagnað svo gífurlega þegar nýi vinnuveitandi hans Adam Scott sigraði á Bridgeston Invitational heimsmótinu í ágúst s.l.

Svar Williams: „Markmið mitt var að troða beint upp í þetta svarta…“ (ens.: My aim was to shove it right up that black…)

Umsögnin vakti undrun margra og birtist á fjölda tweeta mínútum eftir kvöldverðinn.  Steve Williams baðst síðar afsökunnar á vefsíðu sinni.

„Ég biðst afsökunnar á ummælum mínum á Annual Caddy Awards dinner í Shanghai. Kylfingar og kylfuberar hlakka til þessa kvölds allt árið og stemmningin er alltaf full af gríni og skemmtilegheitum. Ég skil nú að ummæli mín gætu hafa verið túlkuð sem kynþáttafordómar. Hvað sem öðru líður þá vil ég fullvissa ykkur um að það var ekki tilgangur minn. Ég bið Tiger innilegrar afsökunar og hvern annan sem ég kynni að hafa móðgað.“

Adam Scott og Rory McIlroy voru meðal áheyrenda skv. blaðinu. Steve Williams á að vera á pokanum hjá Adam Scott í Forsetabikarnum í Melbourne, Ástalíu þar sem Alþjóðaliðið keppir við bandaríska liðið. Tiger, marggagnrýnt val Fred Couples, á að keppa þar líka.

Steve Williams, sem m.a. er þekktur fyrir að hafa hent myndavél ljósmyndara í vatn og kallað Phil Mickelson sv.. á árum sínum með Tiger er virtur og gamall í hettunni, en fjölmiðlar telja að nýjasta uppákoma hans gæti verið vandræðaleg fyrir Adam Scott og gera því í skóna að hann ætti að láta Williams fjúka.

„Ég hef verið kylfuberi í meira en 30 ár núna og þetta er besti sigur lífs míns,“ sagði Williams í ágúst og hann var rétt að byrja.

„Mér finnst ég hafi verið að sólunda síðustu 2 árum mínum,“ sagði Williams í sjónvarpsviðtali í Nýja-Sjálandi „Ég hélt með Tiger og hef verið ótrúlega tryggur.“

Steve Williams sagði að uppsögn sín hefði komið á óvart og hann hefði verið ævareiður.

Tiger var fyrst með Bryon Bell vin sinn á pokanum og skipti síðan yfir í Joe LaCava, sem þá var búinn að eiga stuttan en góðan feril hjá Dustin Johnson.

G-Mac (Graeme McDowell) sem líka var í kvöldverðinum tweetaði að hann hefði skemmt sér á HSBC Caddy of the Year awards. „Þetta hefði verið fyndið kvöld með mikið af húmor, sumum svolítið hvössum!„“

Annað sem benda má á eru ósmekkleg kjúklingaummæli Sergio Garcia fyrr á árinu um Tiger eftir slæmt gengi þess fyrrnefnda á The Players mótinu. Sjá m.a. fréttaflutning Golf 1 af því með því að SMELLA HÉR: )

Hér má líka benda á grein Golf 1: Veit nokkur hver Clearview og Bill Powell eru í golfinu? Sjá með því að SMELLA HÉR: 

Í greininni kemur m.a. fram að furðuskammt er síðan að þeldökkir fengu yfirleitt að spila á golfvöllum í Bandaríkjunum og þeir sem kepptu eins og Charlie Sifford urðu fyrir aðkasti. Bill Powell var brautryðjandi, sem lagði fyrsta golfvöllinn, Clearview þar sem aðeins þeldökkir fengu að spila.

En óréttlætið  er víðar en í Bandaríkjunum í Suður-Afríku eyðilagði Apartheid stefnan golfferil Vincent Vesele Tshabalala (f. 16. mars 1943) sem eflaust hefði orðið jafnstór í golfinu og Tiger hefði honum verið leyft að taka þátt í mótum hvítra.

En það eru ekki bara þeir sem eru svartir sem verða fyrir kynþáttaðkasti. Loks í þessari allt of stuttu grein má minnast á aðkast sem asískir kvenkylfingar verða fyrir á stærstu kvenmótaröð heims, LPGA, þar sem fjöldi asískra kvenkylfinga hefir aukist hin síðari ár.  Rót þess er eflaust eins og svo oft þegar um einelti og mismunun er að ræða öfund; vegna þess að kvenkylfingum frá Asíu vegnar svo vel en nefna má að af topp-10 af Rolex-heimslista kvenkylfinga er helmingur frá Asíu, m.a. nr. 1 Inbee Park.

Reyndar eru bæði bestu karl- og kvenkylfingar í golfinu af öðrum kynþætti en hvítum!

Loks mætti e.t.v. bæta við mismununinni sem kynskiptingar verða fyrir en a.m.k. 2 slíkir eru kylfingar, sem standa framarlega í sinni íþróttagrein golfinu; þær Mianne Bagger og Lana Lawless.

En draumur MLK er því miður aðeins draumur 50 árum síðar, þó landslagið sé í dag allt annað en þegar hann hélt ræðuna góðu.  Víða er enn pottur brotinn og langt í land með að draumur MLK rætist, þó vissulega verði eflaust barist fyrir því um ókomna tíð!

Hér má í lokin hlusta á kónginn flytja „If I can dream“ frá árinu 1968 þegar kynþátta- og jafnréttismál voru víða í heiminum í deiglunni, líkt og þau eru í dag SMELLIÐ HÉR: