Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 2. 2012 | 10:00

Hver er kylfingurinn: Thorbjörn Olesen?

Annar kylfingur sem sigraði nú um helgina var 22 ára Dani, Jacob Thorbjörn Olesen. Hann vann Opna sikileyska (ens. Sicilian Open) og var þetta fyrsti sigur hans á Evrópumótaröðinni og í 4. sinn á árinu sem kylfingi tekst að vinna í 1. sinn á túrnum. (Hinum sem höfðu sigur í 1. sinn á Evrópumótaröðinni eru:  Brendan Grace, Jbe Kruger, Julien Quesne). En hver er þessi huggulegi, ungi Dani, sem margir eru farnir að tala um sem hinn nýja „Martin Kaymer“ Danmerkur?

Thorbjörn Olesen.

Thorbjörn Olesen er fæddur í  Furesø, Danmörku 21. desember 1989 og er því 22 ára. Hann gerðist atvinnumaður fyrir 4 árum, 2008, aðeins 18 ára.  Hann varð í 4. sæti strax á 1. keppnistímabili sínu á Nordea mótaröðinni, 2009, þar sem hann vann 3 mót og fékk þar með kortið sitt á Áskorendamótaröð Evrópu 2010. Það sumar, í júlí 2010, vann hann fyrsta mót sitt á Áskorendamótaröðinni, The Princess, sem haldið var í Svíþjóð. Hann varð nr. 3 á stigalista Áskorendamótaraðarinnar og hlaut þar með kortið sitt á Evrópumótaröðinni, 2011.

Í desember 2010 varð Olesen í 2. sæti á Alfred Dunhill Championship, fyrsta mótinu á 2011 keppnistímbili Evróputúrsins.  Í júní 2011 varð Olesen T-2 á BMW Italian Open í Tórínó, mestmegnis vegna glæsihringjar upp á 62 högg á lokahringnum, en Robert Rock átti samt 1 högg á hann og vann mótið. Næsta mánuð varð Olesen enn í 2. sæti á Alstom Open de France þegar hann fékk skolla á lokaholuna og varð aftur 1 höggi á eftir þeim sem vann, sem í það skiptið var Thomas Levet. Með þessum góða árangri ávann Olesen sér þátttökurétt á Opna breska 2011, en þar náði hann ekki að komast í gegnum niðurskurð.

En í gær vann Olesen sem sagt fyrsta sigur sinn á Evrópumótaröðinni en við það tækifæri sagði hann m.a. aðspurður um hvernig tilfinningin væri:

„Hún er frábær, ég var þrívegis í 2. sæti í fyrra, þannig að það ná fyrsta sigrinum er æðislegt.“

Til þess að sjá myndskeið með gullfallegri golfsveiflu Olesens smellið HÉR: 

Sjá má viðtal við Olesen (á dönsku) – tekið rétt áður en hann komst á Evrópumótaröðina, með því að smella HÉR: