Justin Rose
Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 14. 2012 | 16:00

Hver er kylfingurinn: Justin Rose? (1/3)

Svarið við spurningunni virðist svo auðvelt í augnablikinu, Justin Rose er sigurvegari WGC Cadillac Championship og nr. 7 á heimslistanum yfir bestu kylfinga heims í dag. En hér er ætlunin að grafa aðeins dýpra eins og venja er í þessum kynningarpistlum um fræga og ekki svo fræga erlenda kylfinga og fer hér fyrsta af 3 greinum um þennan snjalla enska kylfing.

Justin Rose fæddist í Jóhannesarborg, Suður-Afríku, 30. júlí 1980 og er því 31 árs. Justin gerðist atvinnumaður 1998 og spilar bæði á PGA og á Evróputúrnum. Það hæsta, sem hann hefir komist á heimslistanum, er 6. sætið og alls hefir hann verið í 35 vikur á topp-10, á ferli sínum.  Justin á heima bæði í London og í Orlandó, Flórída og er kvæntur eiginkonu sinni Kate (frá árinu 2006). Þau eiga 2 börn: Leo (f. 2009) og Charlotte (2012).

Justin með son sinn Leó á hnjánum, ásamt stelpunum sínum Kate með Charlotte og sigurbikarnum úr Cadillac heimsmótinu.

Eins og áður segir þá fæddist Justin Rose í Suður-Afríku.  Hann fluttist þó til Englands 5 ára og hóf um það leyti að spila golf af fullri alvöru í Hartley Wintney golfklúbbnum nálægt þáverandi heimili sínu í Hampshire. Honum tókst að „breaka“ 70 í fyrsta sinn þegar hann var 11 ára og og var kominn með +1 í forgjöf þegar hann var 14 ára. Hann spilaði í Walker Cup 17 ára. Hann reis til frægðar á Opna breska 1998. Hann var bara 17 ára áhugamaður, en frábært högg úr karga fyrir fugli á 18. braut urðu til þess að hann varð T-4 í mótinu.  Justin vann silfurmedalíuna eftirsóttu í því móti, en hún er veitt þeim áhugamanni, sem er með lægsta skorið. Daginn eftir gerðist hann atvinnumaður.  Fjallað verður um atvinnumannsferil Rose á morgun

Í millitíðinni má sjá fallega heimasíðu Justin Rose með því að smella HÉR: 

Heimild: Wikipedia