Ragnheiður Jónsdóttir | október. 14. 2013 | 16:00

Hver er kylfingurinn: Jimmy Walker?

Jimmy Walker er nafn sem ekki er öllum golfáhugamanninum tamt, en Walker er ekki oft efstur á skortöflunni eins og í gær (13. október 2013) á lokadegi Frys.com Open. Sigurinn í gær var hans fyrsti sigur á PGA Tour. Jafnvel þó fólk komi honum ekki fyrir sig er nafnið kunnuglegt vegna þess að það hljómar eins og þekkt skoskt malt whisky; Johnnie Walker, ef ekkert annað. En, hver er kylfingurinn?

Jimmy Walker

Jimmy Walker

Jimmy Walker fæddist í Oklahoma City, Oklahoma 16. janúar 1979 og er því 34 ára. Eftir menntaskóla lék hann golf með golfliði Baylor University í Waco, Texas. Hann gerðist atvinnumaður í golfi strax eftir háskóla, árið 2001. Sem stendur spilar Walker á PGA Tour en var m.a. á Nationwide Tour (nú Web.com Tour) 2003 og 2004. Árið 2004 kynntist hann eiginkonu sinni, Erin, sem þá var sjálfboðaliði á Web.com móti. Þau eru í dag gift og eiga 2 börn.   Það ár (2004) var Walker sigurvegari peningalista Nationwide Tour og var valinn leikmaður ársins á þeirri mótaröð og þannig vann hann sér kortið sitt á PGA Tour.  Það ár vann hann tvö mót á Nationwide Tour: BellSouth Panama Championship og Chitimacha Louisiana Open.

Fjölskyldumaðurinn Jimmy Walker ásamt eiginkonu sinni Erin og tveimur börnum

Fjölskyldumaðurinn Jimmy Walker ásamt eiginkonu sinni Erin og tveimur börnum

Hann spilaði þó aðeins í 9 PGA Tour mótum árið 2005, vegna meiðsla og náði í gegnum niðurskurð í 6 þeirra. Árið 2006 spilaði hann í 21 móti á PGA Tour og  náði aðeins 9 sinnum niðurskurði. Hann náði ekki að halda kortinu sínu á PGA Tour og var aftur kominn á Nationwide Tour 2007. Hann varð í 25. sæti á peningalista Nationwide Tour 2007 og fékk aftur kortið sitt á PGA Tour 2008. Árið 2007 vann hann 1 sinni á Nationwide þ.e. á  National Mining Association Pete Dye Classic. Hann hélt sér síðan á PGA Tour með því að komast í gegnum Q-school 2008.

Walker lauk 2009 keppnistímabilinu í 125. sæti á peningalistanum, var heppinn og náði sér þar með í síðasta kortið sem í boði var á PGA Tour.  Árið 2010 náði hann besta árangri sínum til dagsins í gær en það var 3. sætið á  Valero Texas Open. Hann varð þar með í 103. sæti á peningalistanum og hélt sér á PGA Tour 2011. Það ár 2011 átti hann besta keppnistímabil sitt á  PGA Tour til þessa. Hann varð í 50. sæti á FedEx Cup stigalistanum og var með 4 topp10-árangra. Hann fylgdi eftir frábæru keppnistímabili 2011 með öðru góðu ári 2012.  Það ár varð Walker 64. á  FedEx Cup stigalistanum og átti 6 topp-10 árangra, þ.á.m. varð hann tvisvar sinnum í 4. sæti.

Í gær (13. október 2013) kom síðan fyrsti sigur Walker á PGA Tour á Frys.com Open, eftir 9 ár og 188 mót sem hann hefir tekið þátt á PGA Tour. Sá sigur veitir honum undanþágu til þess að spila á Hyundai Tournament of Champions í ársbyrjun 2014, og eins fær hann nú í fyrsta sinn að taka þátt í draumamóti allra kylfinga The Masters risamótinu. Auk þess er hann búinn að tryggja sér keppnisrétt á PGA Tour til ársloka 2016.