Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 14. 2014 | 09:00

Hvað eru golfhæfileikar?

Hér fer í lauslegri þýðingu ágætis grein Dennis Clark: „Golfhæfileikar: Hvað er það?“

Til er þýskt spakmæli sem er eitthvað á þessa leið: „Durch Fehler wird man klug“ sem myndi útleggjast eitthvað á íslensku sem að „af mistökunum læri maður“ (en merkingin tapast aðeins því klug þýðir í raun klókur eða vitur og því verður þetta í beinni þýðingu að „af mistökunum verði maður klókur/vitur“).  Flestir hugsa hins vegar ekkert um þetta spakmæli þegar kemur að hæfileikaríkasta fólkinu á tilteknu sviði.

Í golfheiminum er talið að íþróttamenn á borð við Tiger Woods og Phil Mickelson séu jafn hæfileikaríkir með kylfuna líkt og endurreisnarlistamaðurinn Michelangelo var með málningarpensilinn á sínum tíma. Skv. bók Daníel Coyle The Talent Code, þá er ekkert auðvelt fyrir nokkurn mann. Ekki fyrir Tiger, Phil eða jafnvel Michelangelo.

talentcode

Coyle heldur því fram að hæfileikar (ens. talent) séu áunnir.  Þeir séu ekki eðlislæg gæði eða gjöf sem veitist fáum útvöldum eða sé eitthvað meðfætt. Hæfileikar eru niðurstaða ákveðins ferils, þar sem nemandinn hlýtur ákveðna uppistöðu í heilanum (efni sem nefnist myelin (sem við höfum reyndar öll)) en það aðskilji hann frá meðalnemandanum.

(Clark segir að hann sé golfkennari og svo sannarlega ekki taugavísindamaður og því myndi hann gera lítið úr verki Coyle ef hann héldi áfram á þessum nótum. En í hlutverki hans sem golfkennara hafi honum fundist bókin sérlega hjálpleg, bæði honum sjálfum og nemendum sínum.  Í þessari grein er dregnar saman nokkrar niðurstöður Coyle til þess að veita þeim sem áhuga hafa leið til að bæta leikinn.

Það fyrsta sem við lærum og græðum hvað mest á bókinni er eftirfarandi:

Lærdómurinn kemur af mikilli æfingu, og æfingar þróast vegna tilrauna og mistaka.

Það verður enginn lærdómur eða þróun hæfileika án þess að reyna og mistakast. Höfundurinn rekur fjölda dæma um nemendur sem fara þolinmóðir í gegnum þetta ferli; efnilegir tónlistamenn spila tónlistarverk aftur og aftur þar til það fellur að túlkun þeirra; ungir brasilískir fótboltakappar læra að hreyfa fótboltann með fótunum þrátt fyrir að þeir detti stundum um hann, pílukastarar, scrabble leikmenn o.fl. gera mistök þar til þeir ná færni í því sem þeir eru að gera . Sama hvað er, þá er sameiginlegi þátturinn sá: hvernig hæfileikarnir eru áunnir.

„Að ströggla er EKKI valkostur,“ segir Coyle. „Það er líffræðilegt skilyrði.“

„Mikil æfing (það sem í bókinni nefnist „deep practice“) byggist á andstæðu; að ströggla markvist – að virkja ítrustu mörk getu ykkar þar sem þið gerið mistök – það gerir ykkur klárari. Eða til þess að umorða þetta; reynsla þar sem þið eruð neydd til að hægja á ykkur, gera mistök og leiðrétta þau, líkt og ef þið væruð að ganga upp ísaðan fjallstopp, þar sem þið rennið til og dettið á leið ykkar – það gerir ykkur snör í snúningum og þokkafull jafnvel án þess að þið takið eftir því.“

„Galdurinn er að velja markmið sem fer aðeins fram úr núverandi getu ykkar til þess að setja markmið fyrir ströggl ykkar. Að tækla það blindandi hjálpar ekki.  Að leitast eftir að ná því gerir það hins vegar.“

Áhrif mikilla æfinga er að það breytir í raun samsetningu heilans.  Coyle segir okkur að allir frábærir listamenn og hæfileikaríkir atvinnumenn (m.a. í golfi) hafi gnægð af efni sem nefnist myelin í taugastrúkktúr sínum. Skv. Coyle fáum við myelin með því að æfa mikið og eftir því sem æfingarnar eru meiri heldur myelinið áfram að hlaðast upp og einangra taugaendana (strúktúrana sem gera það að verkum að neurona getur sent boð til annarrar frumu, tauga-(frumu) sem annarrar). Þetta ferli nefnist myelination, og áhrifin af gnægð myelins er að boðin verða hraðari og beinskeyttari. Og útkoman er, einfaldlega sagt, snillingur.

Lorenzo´s Oil

Lorenzo´s Oil

(Innskot Golf1.is: Mörg ykkar kannast e.t.v. við kvikmyndina „Lorenzo´s Oil“, með stórleikurunum Nick Nolte og Susan Sarandon – sjá trailerinn með því að SMELLA HÉR:  Lorenzo í kvikmyndinni þjáðist af sjaldgæfum sjúkdómi þar sem mýelínið, sem einangrar taugaslíðrin í líkama hans skorti. Foreldrar hans fundu lækningu í formi repjuolíu fyrir son sinn. Má segja að þau hafi hlaðið upp mýelíni í líkama sínum skv. theoríu Coyle (með þrotlausum (miklum) æfingum og tilraunum)  í því skyni að finna lækningu handa syni sínum og bæta úr mýelín-skorti hans.  –  Vinna og rannsóknir þeirra hafa gert líf fjölmargra annarra sem þjást af þessum sjaldgæfa sjúkdómi bærilegt í dag…. og rannsóknirnar halda áfram….

Þó þið takið ekkert annað úr myndinni en það að það þýðir aldrei að gefast upp – þá er það nokkuð sem kemur eflaust til með að nýtast ykkur á golfvellinum, sem og það sem sagt er í lok trailersins – að stundum gerið þið ykkur bara ekki grein fyrir hversu ótrúleg þið eruð fyrr en reynir á! Látið engan segja við ykkur að þið séuð hæfileikalaus, eða að þið getið eitthvað ekki! – Það kann að vera satt á ákveðnum tímapunkti, en það er undir ykkur komið að breyta því… með æfingum og þrotlausri vinnu)

Coyle rannsakaði svæði sem hann nefnir „myelin hotbed“ á ensku og fann þau í hverju tilvikinu á fætur öðru.  (Clark segir í grein sinni að hann vilji ekki túlka verk Coyle, þar sem hann hafi ekki forsendur til þess) en mælir með að þetta sé lesið vendilega.

„Geta er mýelín einangrun, sem vefur sig utan um taugaenda og sem vex skv. ákveðnum boðum,“ segir Coyle í bók sinni. „Saga getu og hæfileika er saga myelíns.“

Hér er skipurit úr bók Coyle:

deep-practice

Þannig að þegar við æfum mikið byggjum við upp myelinforða. Við erum að virkja taugafrumurnar. En hversu mikla æfingu þurfum við? Skv. niðurstöðu Coyle 10.000 tíma.  Ef við reiknum þetta út þá eru þetta 50 tímar á viku á hverri viku ársins í 4 ár.  Fyrir ykkur sem haldið að þið séuð að slá fullt af boltum; hugsið bara um það hversu marga bolta er hægt að slá á 50 tímum á viku (þetta gera í raun 7 tíma per dag, 6 daga vikunnar og 8 tíma sjöunda daginn, ef skipta á þessum miklu æfingum Coyle niður til þess að lokum komi út hæfileikaríkur einstaklingur í golfi, sem hefir forsendur til að verða snillingur).

En hvernig skýrir þessi kenning um myelin vöxt og 10.000 klst æfingar undrabörn eins og Michelle Wie og Lydiu Ko sem hafa keppt á LPGA Tour frá því þær voru táningar? Það er ljóst af viðtölum við þær báðar að þær voru mjög snemma komnar með kylfu sér í hönd eftir að dögum þeirra í vöggunni lauk, þannig að það er líklegt að þær hafi náð 10.000 klst æfingamarkinu jafnvel áður en þær urðu táningar. Vegna hinna miklu æfinga sem þörf er, er betra að byrja í golfi ungur. Hvað sem öðru líður þá er reynsla og mistaka endurtekningin aftur og aftur og aftur augljóslega hluti af þróun hæfileika í gegnum myelination.

En hvernig snertir þetta meðalmanninn í golfi? Gleymum 10.000 klst æfingum; það er einfaldlega ekki raunhæft fyrir flest fólk. Það getur eftir sem áður lært mikið af því að reyna og gera mistök aðferðinni við æfingar. Þegar Coyle talar um mikla æfingu (ens. deep practice) þá er hann að lýsa þeirra vinnu sem Clark telur sig hafa séð að leiði til mests árangurs í golfi.

T.d. þá er gott fyrir hvaða kylfing sem er að horfa á byrjendur á æfingasvæðinu. Sjá hvernig þeir missa að hitta boltann, líta ringlaðir í kringum sig, slá kylfunni í jörðina (grounda hana) eru aftur riglaðir og síðan eins og úr lausu lofti smellhitta boltann, sem veldur ánægju. Á einn eða annan veg leysa þeir gátuna með því að reyna og gera mistök vegna þess að ekkert annað er í boði fyrir þá. Ánægjutilfinningin heldur þeim við efnið, jafnvel þó aðeins 1 högg takist í fyrstu, er reynt að endurlifa ánægjutilfinninguna með því að endurtaka fullkomna höggið og með fleiri tilraunum verða góðu höggin fleiri og mistökunum fækkar.

Golftími er eða ætti að vera ekkert annað en æfing undir handleiðslu, sem veitir nemandanum færi á að leysa vandamál og læra af mistökum sínum.  Ef þú sem nemandi getur fundið hver mistök þín eru og lært af þeim þá ertu á leið mikilla æfinga og bætinga til langs tíma. Það er aðeins í gegnum það hversu heilluð og hversu mikla ástríðu við höfum fyrir viðfangsefni okkar (golfinu) sem við leggjum það á okkur að æfa mikið. Ef það að slá betri högg er eina mótívationin/hvatinn ykkar og þið æfið rétt náið þið árangri.  Ef hvatinn er eitthvað annað en ástríða fyrir golfinu segjum t.a.m. „til þess að verða betri í golfi vegna vinnunnar minnar“ (t.d. framkvæmdastjórar fyrirtækja sem þurfa að spila við aðra stjóra á vellinum til þess að ná fram hagstæðum samningum) eða til þess „að eiga skemmtilega tómstund með maka eða vinum“ þá verður árangurinn ekki eins mikill. En það virkilega frábæra við golfleikinn er að hægt er að njóta hans á svo mörgum ólíkum stigum.

Clark mælir með  The Talent Code, hann segist alltaf vera á höttunum eftir nýjum aðferðum til þess að nota við kennslu sína eða til þess að læra sjálfur af því og sagði að með þessari bók hefði hann náð tvíbentum tilgangi sínum.

Og jafnvel þó efast megi um theoríu Coyle með myelínið henni sé a.m.k. tekið með varúð; þá er eitt víst að hann hefir eflaust rétt fyrir sér hvað miklar æfingar snertir – því í fjölmörgum viðtölum við bestu kylfinga heims (jafnvel er það reynsla Golf1.is í viðtölum við bestu íslensku kylfingana) þá segja þeir bestu aðspurðir um hvernig þeir verði svona góðir, eftir að þeir hafa unnið eitthvert afrekið, að því sé að þakka miklum æfingum!

Og ef þið fylgist vel með í golfi (t.a.m. hér á Golf1.is) þá sjáið þið að þeir allra, allra bestu enduróma orð Coyle um ástríðuna, sem hafa verður fyrir golfleiknum sjá t.a.m. hér viðtal Golf1.is við landsliðsþjálfarann okkar Úlfar Jónsson SMELLIÐ HÉR: