Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 15. 2013 | 21:00

Hull yngst í Solheim Cup 2013

Charley Hull er yngst í liði Evrópu í Solheim Cup (f. 20. mars 1996) aðeins 17 ára. 

Charley og stórkylfingurinn Ian Poulter eiga ýmislegt sameiginlegt: bæði eru ensk, jafnvel í sama golfklúbbi á Englandi: Woburn Golf Club, bæði eru framúrskarandi kylfingar sem þykja hafa „agressívan golfstíl“ og bæði verja stórum hluta af verðlaunafé sínu í tískufatnað.

Bæði eru óhrædd á golfvellinum, neita að gefast upp, berjast fram til sigurs.

Aðspurð hvort hún væri aldurs síns og reynslusleysis vegna stressuð fyrir Solheim Cup sagði Charley:

„Ég er viss um að hver og einn einasti keppandi er stressaður þegar hann tíar upp í Solheim Cup. En ég sé ekki af hverju ég ætti að vera undir meiri pressu en aðrir, bara af því ég er yngst og reynsluminnst. Ég ætla bara að fara út þarna, finna fyrir ástríðunni og slá honum um völlinn eins vel og ég get. Ég ætla ekkert að láta það (að vera yngst) hafa áhrif á mig.“