Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 16. 2021 | 18:00

GSÍ: Ólafur Loftsson ráðinn afreksstjóri GSÍ

Ólafur Björn Loftsson hefur verið ráðinn sem afreksstjóri Golfsambands Íslands. Gregor Brodie hefur látið af störfum en hann hefur gegnt því starfi síðastliðin tvö ár.

Ég er þakklátur fyrir þetta tækifæri og fullur tilhlökkunar fyrir þessu spennandi starfi. Ég hef mikla ástríðu fyrir golfíþróttinni og hef sérstakan áhuga á að styðja sem best við okkar afrekskylfinga. Ég hef fengið góða innsýn inn í íslenskt afreksgolf bæði sem afrekskylfingur og þjálfari og mun sú reynsla klárlega nýtast í starfinu,“ segir Ólafur sem mun sinna starfi afreksstjóra í fullu starfi frá og með 1. mars n.k.

Ég hef haft nóg að gera á undanförnum misserum við ýmis verkefni sem tengjast golfíþróttinni. Það verður í mörg horn að líta á næstu vikum og mánuðum á meðan ég klára ýmis verkefni samhliða afreksstjórastarfinu,“ segir Ólafur Björn en hann hefur á undanförnum árum leikið sem atvinnukylfingur, sinnt stöðu framkvæmdastjóra PGA á Íslandi, aðstoðað afrekskylfinga við ferlið að komast í háskólagolf í Bandaríkjunum og stundað nám í golfkennaraskóla PGA á Íslandi.

Ólafur sem er fæddur árið 1987 hefur lengi verið í fremstu röð afrekskylfinga á Íslandi. Hann varð Íslandsmeistari í golfi árið 2009 og fetaði þar með í fótspor föður síns, Lofts Ólafssonar. Ólafur er einn reynslumesti landsliðsmaður Íslands í flokki áhugakylfinga og hann er eini íslenski kylfingurinn sem hefur fengið tækifæri að keppa á PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum.

Ólafur segir að ástandið á undanförnum mánuðum hafi verið krefjandi verkefni og eðlilega mikið reynt á þolinmæði og útsjónarsemi fremstu afrekskylfinga landsins.

Það sér þó fyrir endann á þessu óvissuástandi og vonandi verður hægt að haga afreksstarfinu með eðlilegum hætti sem fyrst. Eitt af mínum fyrstu verkefnum verður að útfæra áætlun fyrir starfsemina. GSÍ hefur skýra stefnu í afreksmálum þar sem markmið og hlutverk eru vel skilgreind. Ég mun leggja áherslu á að móta öfluga aðgerðaráætlun í nánu samstarfi við starfsfólk og afreksnefnd GSÍ, þjálfara, golfklúbba, afrekskylfinga og fleiri aðila. Mikilvægt er að forgangsraða vel, nýta fjármuni sem best og skapa faglegt umhverfi þar sem okkar afrekskylfingar geta blómstrað. Það býr mikill kraftur í okkar golfhreyfingu og ég sé mörg tækifæri hvernig við getum nýtt betur alla þá þekkingu sem er til staðar. Ég hef til dæmis kynnst vel hversu öflug og fjölbreytt þekking býr á meðal okkar frábæru PGA þjálfara og hversu miklu máli þeir skipta í framþróun okkar afrekskylfinga. Góð samvinna er einfaldlega forsenda fyrir góðum árangri,“ segir Ólafur Björn Loftsson.

Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ:

Nú þegar ljóst er orðið að ákvörðun um breyttar áherslur innan ramma afreksstefnu GSÍ hefur verið tekin vil ég byrja á því að þakka Gregor Brodie fyrir sitt góða framlag til íslenskra afrekskylfinga og þjálfara undanfarin tvö ár. Utanaðkomandi aðstæður undanfarið ár hafa gert hlutina erfiðari fyrir fráfarandi afreksstjóra sem og áherslubreytingar á afrekssviði GSÍ. Þá vil ég óska Ólafi Birni Loftssyni til hamingju með starf afreksstjóra GSÍ. Ég veit að Ólafur mun leggja sig allan fram við að halda áfram á þeirri braut að íslenskir afrekskylfingar nái háleitum markmiðum á alþjóðavettvangi í góðu samstarfi við golfklúbba landsins.