Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 22. 2013 | 09:00

GSÍ: Frá dómarafundi um leikhraða á golfvöllum – „Hæfilega vont veður er best“

Mjög áhugaverður og skemmtilegur fræðslu-og umræðufundur golfdómaranefndar GSÍ fór fram í gær, þ. 21. mars 2013. Milli 20-30 manns sóttu fundinn. Hér er aðeins rúm til að stikla á stóru um umræðuefni fundarins en farið verður ítarlegar í einstök atriði hans í greinum Golf 1 nú um helgina.

Skemmtilegur fundur hjá dómaranefnd GSÍ í gær!

Skemmtilegur fundur hjá dómaranefnd GSÍ í gær!

Hörður Geirsson, og Þórður Ingason, alþjóðadómarar í golfi fluttu erindi.

Hörður fjallaði m.a. um of hægan leik og nefndi fjölmörg dæmi af stærstu mótaröðunum (PGA, LPGA og Evrópumótaröðinni) þar um og hvernig tekið hefði verið á því með viðurlögum.

M.a. nefndi Hörður holutap Morgan Pressel í Sybase Match Play Championship 2012 þar sem hún var vítuð fyrir slór í  undanúrslitaleik og tapaði fyrir alkunnum „hægum“ leikmanni í kvennagolfinu, Azahara Muñoz.

Auk þess fór Hörður ítarlega í nýlegt bréf R&A til GSÍ, um átak gegn of hægum leik og hvernig dómari skuli bregðast við hægagangi leikmanns. Í bígerð er í sumar að dómarar hérlendis stilli saman strengi sína og taki harðar á of hægum leik, m.a. með aukinni beitingu víta, fyrir of hægan leik og frávísun úr mótum taki kylfingar ekki ábendingum um að hraða leik sínum. Kylfingar hafa t.a.m. aðeins 45 sekúndur til að slá af teig, en hingað til hefir ekki verið tekið hart á því, taki þeir sér lengri tíma. Má ætla að nú verði breyting á.

Í máli Harðar kom m.a. fram að það væri aldrei leikið hægar hérlendis en í góðu veðri og best væri því að dæma í hæfilega vondu veðri!  Geta mætti sér þess til að ein helsta ástæða fyrir of hægum leik sé að fólk sé of lengi að ganga völlinn (sérstaklega þegar veður er gott!) – en fjölmargar aðrar ástæður eru einnig fyrir slóri, m.a. of hæg rútína og það að fólk gerir sér ekki grein fyrir að það hefir aðeins gefinn leiktíma t.a.m. 4:20 klst þrátt fyrir að boltar týnist og leita verði að þeim.

Þumalfingursregla varðandi hversu hratt leika skal brautir golfvallar eru 10 mínútur á par-3 braut; 12 mínútur á par-4 braut og 15 mínútur á par-5 braut. Sé Hvaleyrin tekin sem dæmi eru á henni 3 x par-5 brautir = 45 mínútur + 11 x par-4 brautir = 132 mínútur og 4 x par-3 brautir = 40 mínútur = 217 mínútur og fólk hefir því 43 mínútur að koma sér á milli teiga, eða að meðaltali 2 og 1/2 mínútu – ef halda á réttum hraða miðað við að leiktími megi ekki fara fram úr 4:20 tímum á 18 holum.

Ljóst er að meta verður áætlaðan leikhraða 4 manna holls á völlum misjafnt eftir völlum, því þeir eru mislangir og misjafnlega langt á milli teiga.

Fram kom á fundinum að margir klúbbar í Svíþjóð hefðu lokað og væri ein meginástæðan sú of fáir kylfingar væru í sumum klúbbum því þeim þætti golfleikur taka of langan tíma …. sem oft skýrðist af hægum leik.

Umræðuefni Þórðar var „5 mínútna reglan“ þ.e. regla 6-3 a í golfreglunum.  Sú regla er nú túlkuð svo að leikmaður má alltaf hefja leik þó hann mæti of seint á teig, að því tilskyldu að hann sé tilbúinn að slá innan 5 mínútna frá því ráshópur hans var ræstur út, en komi hann seinna fær hann frávísun. Kylfingur má alltaf hefja leik komi hann 5 mínútum of seint gegn 2 höggum í víti.  Mótsnefnd getur fellt vítið niður eftir á hafi kylfingur marktækar afsökunarástæður, sem skýra verður mjög þröngt. Greindi Þórður frá þeim afsökunarástæðum og reifaði jafnfram 5 nýlegar ákvarðanir R&A varðandi túlkun á reglu 6-3 a.

Nokkuð sérstakt í erindi  Þórðar var  að hægt sé að fá frávísunarvíti fyrir að þjófstarta þ.e. ef kylfingur slær af teig áður en rástími hans er kominn og ræsir hefur ekki veitt honum heimild til að slá.

Nánar verður fjallað um erindi Harðar og Þórðar í greinum Golf 1 nú um helgina.