Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 7. 2013 | 08:59

GSÍ: Æfingar afrekshópa ganga vel

Seinasta æfing undirbúningstímabilins hjá afrekshópum GSÍ fór fram s.l sunnudag í blíðskaparveðri hjá Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ, en 26 kylfingar tóku spilæfingu undir stjórn Úlfars Jónssonar landsliðsþjálfara. Að sögn Úlfars hafa afrekshóparnir æft vikulega frá áramótum, framan af mestmegnis í Kórnum, en þegar líða tók á vorið fóru æfingar fram í Hraunkoti og í Básum. Loks var seinasta æfingin spilæfing hjá Kili.

Hvernig hafa æfingar afrekshópanna gengið?

„Æfingar hafa gengið ágætlega í vetur. Vissulega hefði maður viljað hafa hlýrra vor og geta haft fleiri æfingar utandyra, en við ráðum engu hvað varðar veðurfar. Markmið með æfingum hjá afrekshópunum er fyrst og fremst að útbúa keppnislíkar æfingar þar sem árangur er mælanlegur. Við búum við langan vetur sem hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru að kylfingarnir hafa góðan tíma til að vinna í tæknilegum atriðum með sínum þjálfurum, en á keppnistímabilinu finnst flestum erfiðara að sinna því. Hinsvegar líður býsna langur tími frá því keppnistímabilinu lýkur þangað til að það hefst á ný að vori, allavega fyrir þá sem eru hér á Íslandi. Þess vegna hef ég haft það að markmiði fyrst og fremst að æfingar á vegum GSÍ séu keppnislíkar og að árangur sé mælanlegur, þannig að allir sjái hvar þeir standi miðað við aðra, og hvað þeir þurfa að leggja áherslu á sínum æfingum með þjálfurum sínum.“

Hvaða landsliðsverkefni eru framundan?

„Í næstu viku fara þær Anna Sólveig Snorradóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Signý Arnórsdóttir á Spanish International Ladies mótið á Las Colinas nálægt Alicante. Á sama tíma munu þeir Rúnar Arnórsson og Ragnar Már Garðarsson taka þátt í Irish Open Amateur á Royal Dublin vellinum. Bjarki Pétursson var einnig skráður í mótið en komst því miður ekki inn vegna forgjafar.

Í júní munu þeir Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklin taka þátt í tveimur gríðarlega sterkum mótum, þ.e. St. Andrew´s Links Trophy í Skotlandi og British Amateur í Kent á Englandi. Einnig munu Ólafía Kristinsdóttir, Guðrún Brá og Sunna Víðisdóttir taka þátt í British Ladies Amateur mótinu sem fer fram í Wales. Þessi þrjú mót eru meðal stærstu áhugamannamótum heims. Síðan eru mörg fleiri einstaklingsverkefni, en stóru landsliðsverkefnin eru í júlí þegar EM Challenge Trophy og EM kvenna fara fram.“

Hvernig leggst tímabilið í þig?

„Það leggst nokkuð vel í mig. Það er stutt í að tímabilið hefjist og ég veit að kylfingar hér heima eru ólmir í að byrja að keppa. Háskólakylfingarnir okkar hafa staðið í ströngu og eru náttúrlega að æfa og keppa við allt aðrar og betri aðstæður. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim og nokkrir hafa náð mjög góðum árangri, eins og Axel sem hefur leikið mjög vel allt tímabilið. Guðmundur Ágúst hefur leikið mjög vel á sínu fyrsta ári í háskóla, sérstaklega á hausttímabilinu, og Ólafía hefur leikið stöðugt golf og verið góður stígandi eftir því sem hefur liðið á tímabilið. Þannig að ég er bjartsýnn á að þetta verði mjög gott tímabil og óska öllum kylfingum gleðilegs sumars.“

Heimild: golf.is