Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 5. 2014 | 21:00

GR: Marólína á toppnum eftir 7. púttmót GR-kvenna – Besta skorið – 27 pútt – átti Áslaug Svavars

Fyrir nákvæmlega viku síðan fór fram 7. og næstsíðasta púttmót GR-kvenna.  Hér fer fréttatilkynning kvennanefndar GR um púttkvöldið:

Um eitthundrað konur létu sig ekki vanta á sjöunda og næstsíðasta púttkvöld GR kvenna enda fer nú tækifærunum fækkandi til að slá um sig á Korpunni í keppninni um púttmeistara GR kvenna. 

Völlurinn í kvöld var laaaangur og þröngur og þurftu púttarar á tíðum að skáskjóta sér á milli hola. Það var nú bara gaman og jók á nándina. 
Besta skorið var 27 högg og það átti Áslaug Svavars. Frábær frammistaða þar!

Staðan er óbreytt að loknum sjö kvöldum. Marólína trónir á toppnum og í humáttina, jafnar á aðeins tveimur fleiri höggum koma þær stöllur Svanhildur og Sigríður M ásamt fleirum þar sem örfá högg skilur á milli efstu sæta. Það getur enn allt gerst, það þarf ekki nema draumahringinn og sigurinn er í höfn.

Áttunda og síðasta púttkvöldið er í kvöld. Þá er Öskudagur og að sjálfsögðu mætum við allar í búningum enda besti búningurinn verðlaunaður á skemmtikvöldinu þann 8.mars nk. og til mikils að vinna.

Hlökkum til að sjá ykkur fjölmenna í öskudagspúttið og ljúka þannig með stæl flottri púttmótaröð 2014.

Ein okkar týndi bíllyklinum sínum. Ef einhver hefur orðið hans var þá vinsamlega meldi hún sig við okkur í nefndinni. 

Meðfylgjandi er skorið og staðan í dag

Nefndin þakkar Lilju Lilja Viðarsdóttir fyrir myndir af stemmningu kvöldsins 

kær kveðja, 
kvennanefndin,“