Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 3. 2013 | 18:30

Golfvellir í Frakklandi: Morfontaine (6/10)

Nú verður fram haldið að kynningu á 10 golfvöllum í kringum París, í Frakklandi. Frakkland er yndislegt golfland með 3. flesta golfvelli af löndum Evrópu, eða 574 talsins (árið 2010).

Í kvöld verður örstutt kynning á einni fegurstu perlu í franskri golfvallarflóru; Morfontaine.

Morfontaine golfklúbburinn var stofnaður árið 1913 af hertoganum Armand de Gramont af Guiche og á því 100 ára afmæli í ár!  Aramand de Gramont réði skoska golfvallarhönnuðinn Tom Simpson til þess að hanna 9 holu golfvöll (Vallière), þar sem hertoginn og vinir hans gætu leikið sér í golfi.  Eftir 1. heimstyrjöldina ákvað Gramont að stækka golfvöllinn sinn í 18 holu. Með fjárstuðningi nokkurra vina sinna m.a. d´Edward Esmond, Armand Benedic, René Thion de la Chaume (ættföður Lâcoste veldisins) og síðast en ekki síst Edouard de Rottschild var Simpson að nýju fenginn til að bæta við völlinn frábæra og breyta honum í stóran völl (Grand Parcours). Völlurinn var tilbúinn 1927 – í kringum hann var stofnaður klúbbur, sem  afar fáir fengu félagsaðild að (þ.e. útvaldir, vinir og þeir sem höfðu meðmæli annarra félaga) og er svo enn í dag.

Árið 2011 útnefndi Golf World völlinn næstbesta golfvöll á meginlandi Evrópu á eftir Valderrama á Spáni.

Morfontaine er í Ermenonville skógi í Thiers-sur-Theve, Picardie, en Ermenonville er einn af 3 skógum í kringum París og þessi er í norður.  Vellinum er óaðfinnanlega viðhaldið enda oftast talinn  besti eða með bestu golfvöllum Frakklands.

Uppáhaldshola margra á vellinum er par-4 10. holan en í kringum hana eru engar sandglompur!  Morfontaine er draumavöllur allra sem eru hrifnir af fullkomnum skógarvöllum, þar sem reynir á nákvæmni fremur en grip-it-og rip-it attitudinu á strandvöllum.

Morfontaine er lokaður fyrir almenningi – aðeins er hægt að spila völlinn sé viðkomandi í boði félaga í Morfontaine klúbbnum, en hann er s.s. segir einkaklúbbur.

Allt í kringum Morfontaine andar frá sér kyrrð og aristókratisma. Eitt af því sem er algerlega frábært við völlinn er að það eru engar vatnshindranir.  Lykillinn að góðu gengi á Morfontaine er að vera nokkuð beinn og vera glúrinn í staðsetningargolfi.