Golfvellir á Spáni: í Cádíz nr. 6 – Valderrama
Valderrama golfklúbburinn eða Club de Golf Valderrama upp á spænsku er einn best þekkti einkagolfklúbbur Evrópu og hann er eins og svo margir frábærir golfklúbbar staðsettur í Cádiz, í Andalucíu. Ár eftir ár er hann valinn besti völlur Evrópu. T.a.m. hefir hann verið valinn golfvöllur nr. 1 á meginlandi Evrópu af Golf World Magazine, 15 ár í röð og var valinn nr. 1 af t.a.m. Golf Monthly 2011.
Flest okkar þekkja völlinn af því að Ryder Cup fór fram þar 1997, Volvo Masters hefir verið haldið þar ár eftir ár og eins var Andalucia Masters haldið þar á síðasta ári, 2011, þar sem Sergio Garcia sigraði svo eftirminnilega. Meðal kylfinga á Evróputúrnum sem eru félagar í klúbbnum dettur mér í svipan bara Alejandro Cañizares í hug, en svo skemmtilega vill til að bæði Alejandro og Sergio eiga sama afmælisdag, 9. janúar og skilja aðeins 3 ár þá að, Sergio fæddur 1980 og Alejandro 1983. Nokkrir Íslendingar hafa spilað völlinn og láta vel af, en spil þar er upplifun, sem seint gleymist.
Valderrama er hluti Sotogrande golfstaðarins og áður en Jáime Ortiz-Patiño keypti völlinn 1984 gekk hann undir nöfnunum „Sotogrande New“ og „Las Aves.“ Síðla árs 2010 seldi Ortiz-Patiño Stripe-group Valderrama en Stripe-group er í eigu áströlsku golfgoðsagnarinnar Greg Norman, sem líka er oft nefndur „hvíti hákarlinn.“
Völlurinn var hannaður af golfvallararkítektinum kunna Robert Trent Jones Sr. 1974 og svo skringilega sem það hljómar, með hliðsjón af því hversu mikið flaggskip völlurinn er, þá er þetta völlur sem öll getustig golfspilara hafa gaman af… svo er snilli Trent Jones fyrir að þakka… ef ekki kæmi til geysihátt vallargjaldið, en þegar ég spilaði völlinn 27. september 2007 kostaði hringur á honum € 300 (eða u.þ.b.. 50.000 íslenskar krónur) og hefir að mér sýnist ekkert breyst (sbr. verðskrá á heimasíðu). Valderrama er heldur ekki völlur sem maður „droppar inn“ til þess að spila hring heldur þarf að bóka með góðum fyrirvara, enda er þetta einkaklúbbur með aðeins takmarkaða rástíma fyrir gesti. Völlurinn er par-71 og 6.356 metra af öftustu teigum, en par-72 og 4.873 metra af rauðum teigum , sem sjaldnar er talað um. (Þannig er lengdin á rauðum tilgreind á skorkortinu mínu – en það ber nokkra metra á milli frá því sem segir á heimasíðunni) Af gulum er völlurinn 5.501 metra.
Best er að skoða Valderrama á heimasíðu golfklúbbsins en þar eru fallegar myndir af vellinum og hægt að „fljúga yfir“ hverja braut. Smellið HÉR:
Þess mætti geta að þegar ég spilaði Valderrama fyrir 5 árum var ég með 28 í forgjöf, búin að vera 2 sumur í golfi og alveg komin á það að hætta í golfi vegna þess hversu tímafrekt sportið var og vegna ýmissa misskemmtilegra kylfinga, sem voru ekkert að fara of mjúkum höndum um byrjandann. Ég var í golfi á eigin forsendum, átti engan kærasta, eiginmann, föður eða bróður eða aðra fjölskyldumeðlimi eða vini, sem drógu mig í golf með sér. Ég átti enga spilafélaga. Ég var að gera allt vitlaust, stíga í púttlínur, koma of seint á teig sem hafði í för brottvísun úr mótum, spilaði hringi með forsnobbuðum kerlingum, svo leiðinlegum að vart var þolanlegt – sjálfar varla slarkfærar í golfi, en gefandi leiðbeiningar og ráð hægri og vinstri, gerandi lítið úr þeirri sem var með örlítið hærri forgjöf en þær. Ég hitti karlkylfinga sem ekki vildu spila með mér vegna þess að þeir voru forgjafarlægri, sérstaklega voru kylfingar með forgjöf á bilinu 10-20 ótrúlega leiðinlegir og ég hét sjálfri mér að svona skyldi ég aldrei verða. Reyndar yrði ekkert úr mér, því ég var að hætta. Það eina sem hélt mér í golfinu voru kennararnir mínir: Árni Jónsson á Akureyri, Andrés Jón Davíðsson, sem þá var að þjálfa Birgi Leif um þetta leyti og Magnús Birgisson. Þeir byggðu upp það sjálfstraust sem þurfti til þess að ég mætti aftur og aftur á teig þrátt fyrir hverja harmsöguna á fætur annari í golfinu vikuna áður. Mér þykir ofboðslega vænt um þá í dag að hafa haldið mér í golfinu, því ekkert sem ég sagði þeim á sínum tíma var nokkuð sem þeir höfðu ekki heyrt um áður og allir gáfu ráð sem dugðu.
Svo var það að einn kylfingurinn, sem sagði rogginn við mig með glampa í augum að sér hefði verið boðið að spila á Valderrama, en þar spiluðu bara þeir bestu. Ég man enn að hann hló og sagði að ég ætti auðvitað ekki að spila þar, þar spiluðu bara þeir bestu. Mér væri fyrirmunað og ómögulegt að spila þar og það að sér væri boðið sýndi bara hversu miklu betri kylfingur hann væri en ég.
Valderrama, hvað var nú það? Ég hafði ekki hugmynd um það, fremur en að ég vissi hver Birgir Leifur var (annað en að hann væri eini nemandi Andrésar Jóns kennarans míns, sem mér fannst furðulegt!) en ég var staðráðin í að spila þennan völl, hvað sem það kostaði. Það yrði líklega það síðasta sem ég gerði í golfinu, en bara svo það væri á hreinu, þann völl skyldi ég spila!
Þegar ég kom á bíllaleigubílnum mínum á Sotogrande svæðið settist svolítill beygur að mér; hvers konar staður var þetta eiginlega? Það var varðmaður fyrir utan og mér ekki hleypt inn fyrr en ég sýndi tilskylda pappíra. Svo var ég svolítið sein fyrir eins og venjulega, líklega yrði mér bara vísað frá þessum mikla helgidómi golfsins. Kaddýmasterinn tók á móti mér og var ekkert nema brosið krækt milli beggja eyrna. Það fyrsta sem hann sagði var að ég væri nú heldur sein fyrir. „Já, nú kemur það“ hugsaði ég með mér, mér verður vísað frá. En ekkert fjær því. Hann sagði mér að hollið mitt væri farið út, hann hefði bókað mig klukkustund seinna hvort það væri í lagi? Ég mætti ekki missa af æfingasvæðinu þeirra og eftir erfiða ferð væri nú kannski gott að slaka aðeins á? Svo fengi ég að spila með félagsmönnum, sem ekki allir fengju! Þau hefðu haft holl frá Íslandi fyrr um sumarið en Íslendingar væru nú ekkert sérlega algengir gestir og síst af öllu stakur kvenkylfingur frá Íslandi! Reyndar væri óalgengt að konur spiluðu án félaga og ég væri eini kvenkylfingurinn, sem hann myndi eftir að hefði komið ein frá Íslandi. Mér létti maðurinn var ekki að vísa mér frá.
Ég spurði kaddýmasterinn svolítið beygð hvort ég mætti ekki spila Valderrama ein, það væri ekki á neinn leggjandi að spila með mér, ég vildi ekki skemma hringinn fyrir neinum. Hann sagði brosandi að golf snerist um það að njóta, ég gæti ekki skemmt neitt fyrir neinum og ég fengi alls ekki að spila ein. Ég væri velkomin og gestur þeirra! Óheyrð almennilegheit og innst inni þótti mér vænt um að þurfa ekki að hespa þessum skyldulokarhring mínum í golfinu af ein. Það skyldi sko hætt í golfi með stæl!
Í hollinu mínu voru 3 karlkylfingar, Englendingur, Þjóðverji og Spánverji, sem allir báru mig á höndum sér og gerðu hringinn minn á Valderrama að þeirri allra bestu golfreynslu sem ég hef nokkru sinni notið. Reyndar var ég stressuð og þrælsprengdi 1. holuna Sol y Sombra, sem er par-4 svolítið upp í móti, 282 metra af rauðum. Maður sér flaggið af teig og eiginlega ætti hún að vera viðráðanleg, en ég spilaði hana á 9 höggum. Ég var inni á flöt í 3. höggi, en 6-púttaði síðan!!! Mér var brosandi sagt að þetta væri reynsla flestra sem spiluðu Valderrama í fyrsta sinn. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, spilað völl með jafnhröðum flötum, en það tók nokkrar brautir að venjast því að skauta á þeim.
Valderrama þessi mikli völlur sem kylfingi eins og mér átti að vera fyrirmunað að spila á var síðan spilaður mestmegnis með 7-járni og Odyssey 3-ball pútternum mínum, sem vakti mikla lukku meðal spilafélaga minna, ekki hvað síst beiting hans nokkrum metrum fyrir utan flatirnar á Valderrama. Mér fannst völlurinn frábær. Sem týpískur kvenbyrjandi í golfi var ég höggstutt, en mjög bein og Valderrama hjálpaði mér þar sem ég fékk extra-rúll á boltann minn á geysihröðum brautum og flötum vallarins. Svona var það þá að spila golf. Það var greinilega til golf…. og svo Golf!
Það var upplifun að spila 4. brautina, La Cascada, sem er einkennisbraut Valderrama – par-5, erfiðasta brautin en síðasti spölur að flöt liggur meðfram á. Tíunda brautin, par-4, sem heitir El Lago (auðveldasta brautin á Valderrama) er mér sérlega minnisstæð en þar náði ég eina parinu mínu á hringnum. Þegar skrifaðar eru úrslitafréttir t.a.m. af af Andalucia Masters kíki ég alltaf á hvað stjörnurnar eru að fá á El Lago og yfirleitt eru það ernir eða fuglar :-)… en sumir fá líka par og þá get ég ekki annað en brosað! … en þá verður líka að taka með í dæmið að ég var að spila af rauðum en þeir af hvítum og mikill fjarlægðarmunur og landslagið allt annað.
Það var dekrað við okkur á hringnum en eftir rúmlega hálfan hring komu starfsmenn Valderrama í golfmatarbíl með hressingu: hægt að velja um ýmislegt kræsilegt, m.a. nestiskörfu og svalandi drykki, sem gott var að fá enda orðið ansi heitt þarna.
Spilafélagar mínir voru afar undrandi á að ég skyldi ekki hafa heyrt um „Los Gabiones“ en svo nefnist hin fræga (par-5 af rauðum) 17. braut Valderrama. Ég sló í vatnið og 2. sprengjan á annars frábærum hring leit dagsins ljós. Þarna ætti hollinu mínu að hafa verið ljóst að ég þekkti virkilega EKKERT til sögu Valderrama. Svona þegar horft er tilbaka er ekki annað en hægt að fyllast aðdáum á Miguel Angel Jiménez þegar hann var kominn inn á flöt í 2. höggi s.l. október á 17. brautinni á lokahring Andalucia Masters,en brautin sem er metin 5. erfiðust á Valderrama, er alveg á við La Cascada. Jiménez fékk fugl s.s. allir muna.
Síðan var komið „heim“ í klúbbhús eftir að hin langa „Casa Club“ 18. brautin, par-4 (343 metrar af rauðum) var spiluð.
Félagar mínir buðu mér upp á drykk og þökkuðu MÉR fyrir skemmtilegan hring…. þetta væri þeirra fyrsti með íslenskum kvenkylfingi.
Síðan var verslað í „lúxús-pro-shopi“ Valderrama, þar sem bókstaflega allt fæst handa kylfingum og er tilfinningunni best lýst eins og að vera krakki sem í fyrsta sinn fær að versla í FAO Schwarz í New York, ef þið vitið hvað ég meina (en verslunin er ein stærsta leikfangaverslun heims og þótt víða væri leitað!)
Það er styst frá því að segja að ég hætti ekki í golfi. Fyrir sérhvern „leiðinlegan“ kylfing eru a.m.k. 10 frábærir kylfingar. Gleymið því aldrei þegar þið spilið með ókunngan í hollinu að framkoma ykkar ræður miklu fyrir meðspilara ykkar og hvernig til tekst með hringinn.
Það kostar ekkert að brosa!
Jafnvel þegar spilaður er jafn þekktur og frábær völlur og Valderrama er það félagsskapurinn og framkoman sem skipta öllu þó umhverfið eitt sér á Valderrama hefði nægt til að upphefja hvað sem komið hefði upp á. „Verið góð við hvert annað“ eins og ýmsir golfkennarar sem ég hef verið hjá hafa sagt eða „komið fram við aðra eins og þið viljið að komið sé fram við ykkur!“
Það vill enginn að lítið sé gert úr hæfileikum hans á golfvellinum, hversu litlir sem þeir nú annars eru eða hversu lága forgjöf þið hafið. „Forgjöf er tímabundið ástand, sem er breytingum háð… sérstaklega eftir tíma hjá mér…“ eins og einn góður golfkennari sagði við mig. Það er nokkuð víst að eftir hringinn góða á Valderrama hefir ekki flögrað að mér að hætta í golfi… það þarf ekki nema einn dag á jafndásamlegum velli og Valderrama í góðum félagsskap og þá veit maður af hverju maður spilar Golf!
Upplýsingar:
Heimilisfang: Avda. de los Cortijos, s/n Sotogrande, 11310 San Roque, Cádiz
Sími: + 34 956 791200
Fax: +34 956 796028
Tölvupóstfang: greenfees@valderrama.com
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024