Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 20. 2013 | 10:00

Golfreglur: Í vatnstorfæru

Nú þegar golftímabilið fer að hefjast og kylfingar landsins streyma á golfvellina, sem fara að opna hver á fætur öðrum í næsta mánuði þá er e.t.v. rétt að rifja upp golfreglurnar.

Það verður gert hér á Golf1 í raunhæfum dæmum, sem kylfingar geta glímt við en svörin eru jafnframt gefin upp við hverri spurningu.

Raunhæft dæmi: 

Kylfingur í höggleikskeppni slær bolta sinn í vatnshindrun. Kylfingurinn beitir reglu 26-1b þar sem segir: „Finnist bolti í vatnstorfæru eða það er vitað eða nánast öruggt að bolti sem ekki hefir fundist er í vatnstorfærunni (hvort sem boltinn liggur í vatni eða ekki) má leikmaðurinn gegn 1 vítahöggi:

b. Láta boltann falla aftan við vatnstorfæruna, þannig að sá staður þar sem upphaflegi boltinn fór síðast yfir takmörk hennar sé í beinni línu milli holunnar og þess staðar þar sem boltinn er látinn falla á og án takmörkunar á því hve langt aftan við torfæruna boltinn er látinn falla.“

Kylfingurinn fer eins langt aftur og hann kemst og droppar boltanum sínum  í sandglompu og slær síðan högg upp úr glompunni. Hvernig dæmist?

A. Kylfingurinn fór rétt að í einu og öllu og hlýtur ekkert víti.

B. Kylfingurinn fær eitt högg í víti.

C. Kylfingurinn fær tvö högg í víti eitt vatnstorfuvíti og eitt víti fyrir að droppa boltann á ólögmætan hátt í sandglompu.

D. Kylfingurinn hlýtur frávísun.

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

Rétt svar: B. Kylfingurinn má droppa bolta sínum í sandglompu og slá þaðan, en verður að taka á sig 1 víti skv. reglu 26-1b.  Sbr. og úrskurð 26 1/2.