Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 4. 2014 | 20:00

Golfgrín á laugardegi

Kylfingur er að leita að boltanum sínum í karganum og kemur niður á eitthvað hart.

Hann fálmar í háa grasinu og finnur gamlan olíulampa.

Undir eins minnist hann sögunnar um þúsund og eina (1001) nótt  og hann nuddar lampann og sjá….  það gýs virkilega fram flöskuandi.

Andinn varar kylfinginn við heldur pirraður: „Heyrðu, mundu eitt, það eru ekki í dæminu 3 óskir. Þú ert sá 12. sem finnur mig í dag. Ég er drulluþreyttur og meira en eina ósk get ég og vil ekki veita þér.  Hugsaðu því vel um hvað þú óskar þér!“

Maðurinn leggur höfuðið í bleyti í nokkurn tíma og segir: „Veistu, ég hef stórt vandamál. Ég vil gjarnan  fljúga einu sinni til Flórída til þess að komast í golf þar í góða veðrinu. En með skipi er það ekki hægt, því ég verð svo hræðilega sjóveikur. Ég get heldur ekki ferðast með flugvél, því ég er svo hræðilega flughræddur. Byggðu mér því brú héðan til Flórída, þannig að ég geti keyrt þangað á bílnum mínum.“

Andinn svarar: „Segðu mér, eitthvað vitlausara gastu ekki óskað þér. Hugsaðu nú aðeins um, hvað við þurfum mikið af steypu og stáli eða hversu djúpt stöpplarnir þurfa að fara niður á sjávarbotninn. Þetta er heilmikil fyrirhöfn og í ofanálag ekki umhverfisvænt. Neeeehhhh, komdu með einhverja aðra ósk!“

„Hmmmmhhhhh“ maðurinn hugsar sig um dágóða stund. Þá lýsist andlit hans allt í einu upp eins og kviknað hafi á perunni og hann segir: „Nú er ég kominn með það. Veistu, elsku andi, golfsveiflan – hver skilur hana? Af hverju flýgur boltinn ekki beint, þegar ég ég slæ beint? Eða af hverju fer boltinn minn til vinstri þegar ég vil feida boltann? Af hverju hitti ég fyrst í jörðina áður en kylfan snertir boltann? Og af hverju lendir boltinn minn alltaf í karganum, í glompu eða vatnshindrun, jafnvel þó ég vilji alltaf koma í veg fyrir það með stöðu minni, gripi og miði.  Æji, elsku andi, gerðu það fyrir mig að ég skilji golfsveifluna og geti slegið rétt.“

Andinn hugsar sig um í stutta stund og svarar svo: „Þú. Segðu. Brúin þín. Viltu hafa hana með 2 eða 4 akreinum?“