Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 31. 2013 | 20:00

Gleðilegt nýtt ár 2014!

Golf 1 óskar lesendum sínum svo og öllum kylfingum og landsmönnum nær og fjær gleðilegs nýs árs 2014,  með mörgum gleðistundum í golfi á komandi ári.

Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá

Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá

Golf 1 hefir nú verið starfandi í rúma 27 mánuði, þ.e. 2 ár , 3 mánuði og 6 daga og hafa á þeim tíma birtst rúmlega 7700 greinar, en þar af voru rúmlega 3200 skrifaðar á s.l. ári, 2013,  sem þýðir 8.77 grein eða tæplega 9 birtar greinar um golf á hverjum einasta degi ársins, sem er mesta fréttamagn á vefsíðu um golf á Íslandi.

Kylfingar innanlands, sem og vaxandi fjöldi erlendra kylfinga hafa tekið þessum yngsta golffréttavef Íslands framúrskarandi vel og umferð um vefinn ekkert nema aukist frá því hann hóf starfsemi 25. september 2011.

Á árinu var haldið áfram að skrifa greinar um Ísland, íslenskt golf og það sem íslenskt er á ensku og jafnframt var tekið  upp á þeirri nýjung í apríl- lok 2013 að rita greinar um golf á  á þýsku. Golf 1 hefir nokkra sérstöðu, þar sem hann er eini golfvefurinn í heiminum , sem skrifar á ensku og þýsku um íslenskt golf.  Fyrstu þýsku golfgreinarnar á Golf1 birtust sem segir í apríllok 2013 og  var um  tilraun að ræða, sem tókst framúrskarandi vel, þannig að greinum á þýsku á Golf 1 verður fjölgað 2014, vegna töluverðra áskoranna þar um.  Það sama er að segja um enskar golfgreinar Golf 1.  Þess ber að geta að á sama tíma og skrifað hefir verið á ensku og þýsku á Golf 1 um íslenskt golf, hefir erlendum golfferðamönnum  fjölgað, sem sækja Ísland og íslenska golfvelli heim.

Nokkra gleði vekur það jafnræði sem er í lesendahóp Golf 1, þar sem karlkylfingar eru þó aðeins í meirihluta lesenda eða 54% á móti 46% kvenkylfinga.  Þessi prósentutala mætti gjarna endurspeglast í þátttöku kvenkylfinga í mótum sem og í aukinni þátttöku ungra stelpna í golfi.  E.t.v. stuðlar jafnræði í umfjöllun um golfleik beggja kynja að því að áhugi  kvenna á þátttöku í golfi glæðist og eykst. Ábyrgð fjölmiðla er þar mikil.

Það verður ekki annað séð en að á kvenkylfinga sé hallað í almennri umfjöllun um golf hérlendis. Heyrst hefir í ýmsum kvenkylfingum að vanda mætti alla orðræðu um kvenkylfinga og hvernig fjallað er um kvennagolf. Þar hefir Golf 1 reynt að bæta úr og er auk þess eini vefurinn hér á landi, sem reglulega birtir fréttir af úrslitum á helstu kvenmótaröðum heims, LPGA og LET og er með kröftuga kynningu á þeim kvenkylfingum sem þar spila.  Það er gaman að geta sagt frá því að eitt vinsælasta fréttaefni  Golf 1 árið 2013 skuli vera Lancôme mótið á Hellu, en þar hefir Golf 1 verið  með ítarlega umfjöllun, um þetta eitt vinsælasta kvennamót á Íslandi, allt frá því Golf 1 hóf göngu sína og reyndar nokkur ár þar áður.  Umfjöllun Golf 1 um Lancôme kvennamótið og myndaserían, sem birtist árlega eru meðal 10 vinsælustu greina af 3300 skrifuðum á Golf 1 á árinu!

Ýmsar nýjungar verða á döfinni á Golf1 á næsta ári, 2014. M.a. er ætlunin að auka umfjöllun um öldungamótaraðir, bæði PGA og Evrópumótaraðanna en umfjöllun um öldunga í golfi hefir líkt og á við um konurnar oft mætt afgangi hjá fjölmiðlum landsins, sem beina athygli sinni oftar en ekki að afrekskylfingunum okkar, sem auðvitað eru allra góðra gjalda virði. En eitt ætti ekki að þurfa að útloka annað – stefna Golf 1 verður bæði og …. þ.e. umfjöllun Golf 1 verður   hér eftir sem hingað til, bæði um karl- og kvenkylfinga; bæði afrekskylfinga og almenna kylfinga, öldunga, sem og hina yngri og hvað hina yngri snertir mun Golf 1 að sjálfsögðu, líkt og undanfarin ár vera áfram sterkur miðill í umfjöllun um glæsileg börn og ungmenni, sem eru innan íslenskrar golfhreyfingar. Eflaust eigum við fremur fyrr en síðar eftir að sjá mörg þeirra á helstu mótaröðum heims!!!  Það er með þó nokkru stolti að hægt er að segja frá því að eitt vinsælasta fréttaefni Golf 1 árið 2013 (þ.e. á topp-12 af 3300 rituðum greinum) var viðtal við bráðefnilegan 12 ára strák, Ingvar Andra Magnússon, í GR, sem seinna um haustið stóð einn uppi í shoot-out Unglingaeinvíginu í Mosó!  Eins voru úrslitafréttir ásamt myndaseríum af Áskorendamótaröð Íslandsbanka og Íslandsbankamótaröðinni vinsælt efni, sem og úrslit og myndaseríur af Eimskipsmótaröðinni á árinu 2013, og eru allar fréttir og myndaseríur þar að lútandi meðal topp-100 af 3300 skrifuðum fréttum!

Golf 1 var þar að auki með fréttir um öll meistaramót golfklúbba á Íslandi 2013, sem á annað borð héldu slík mót og auk þess var af krafti  fylgst með krökkunum okkar í háskólagolfinu í Bandaríkjunum, en flest ef ekki öll eru meðal fremstu afrekskylfinga landsins. Óhætt er að segja að flestar þær greinar voru og eru vinsælt fréttaefni og mun Golf 1 áfram flytja fréttir um framangreint.

Ofangreint sýnir aðeins eitt að kylfingar, íslenskir sem erlendir, virðast kunna að meta breidd í fréttaflutningi um golf.  Hana mun Golf 1 reyna að færa sístækkandi hópi lesenda sinna.

Golf1.is fer nú í nýársdagsfrí og munu nýjar golffréttir ekki birtast fyrr en árla morguns á nýju ári, 2. janúar 2014.

Kærar þakkir fyrir frábærar viðtökur – Hafið það gott! – Komist öll slysalaust yfir ársskiptin með bestu óskum um heilbrigði og hamingju 2014.

Ragnheiður Jónsdóttir, ritstjóri Golf 1.