Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 7. 2013 | 10:15

GKB 20 ára

Afmælishóf var haldið í golfskálanum að Kiðjabergi í gær, 6. apríl 2013, í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá stofnun Golfkúbbsins Kiðjabergs. Tæplega 100 gestir mættu til veislu og voru klúbbnum færðar veglegar gjafir. Margir af stofnfélögum klúbbsins mættu til að fagna þessum merku tímamótum. Jóhann Friðbjörnsson, formaður og framkvæmdastjóri GKB, flutti ræðu og fór m.a.yfir sögu klúbbsins. Karlakór Hrunamanna kom í heimsókn og tók lagið við góðar undirtektir gesta.

Í ræðu sinn í dag sagði Jóhann formaður m.a. að félagafjöldi í Golfklúbbi Kiðjabergs væri nú rúmlega 400 talsins og hefði því tífaldast frá stofnum hans árið 1993. Stefnan er sett á að fjölga félögum umtalsvert á næstu misserum. Þó svo að klúbburinn hafi fjárfest mikið á liðnum árum í uppbyggingu vallarins og tækjakaupum þá eru skuldir klúbbsins óverulegar í dag.

Sjá má myndaseríu frá afmælishófinu með því að

SMELLA HÉR: 

Kristinn Kristinsson var gerður af heiðursfélaga klúbbsins, en hann var formaður GKB í tíu ár, frá 1995 til 2005. Jón Ásgeir Eyjólfsson, forseti GSÍ, flutti ræðu og færði klúbbnum Háttvísibikar GSÍ, sem veittur verður árlega þeim félaga í GKB sem þykir sína sérstaka háttvísi.

Lóðarfélag Hests og Kiðjabergs færðu kúbbnum peningagjafir til kaupa á hljóðkerfi sem sett verður upp í golfskálanum. BM Vallá gaf 200 þúsund króna vöruúttekt hjá fyrirtækinu. Golfklúbburinn á Hellu færði klúbbnum trjáplöntur og Golfklúbburinn á Flúðum gaf fallegan grip. GR færði klúbbnum áletraðan platta og þá færði Jenetta Bárðardóttir klúbbnum mynd af fystu kvennasveit klúbbsins, sem tók þátt í sveitakeppni heldri kvenna í fyrra.

Ræða formanns:
„Á 20 ára afmælisári Golfklúbbs Kiðjabergs er gaman að rifja upp hvernig það kom til að klúbburinn varð til. Meistarafélag Húsasmiða (MH) keypti jörðina Kiðjaberg í Grímsnesi árið 1989 og var hún hugsuð sem orlofsaðstaða fyrir félagsmenn, en jörðin er fornfrægt óðalsbýli og hennar getið strax í Landnámabók Ara Fróða. Kiðjaberg er um 500 hektarar að stærð og afmarkast af Hvítá og Hestvatni annarsvegar og jörðunum Arnarbæli, Gelti og Hesti hinsvegar. Á jörðinni stendur gamla sýslumannshúsið byggt 1869 og er talið elsta timburhús í sveit á Suðurlandi. Meistarafélagið réðist í að endurbyggja gamla Kiðjabergs bæinn í upprunalegri mynd árið 1990, en húsið var orðið býsna hrörlegt eftir 120 ár. Að allra dómi tókst einstaklega vel til með endurgerð hússins og nú stendur það sem verðugur minnisvarði um höfðingjasetur fyrri aldar.
Strax árið 1989 voru hafnar framkvæmdir við mótun vallarins eftir hönnun Hannesar Þorsteinssonar. Fljótlega fóru menn að slá bolta á gamla túninu þar sem 10. og 17. braut eru nú. Eftir því sem brautirnar greru komu þær í leik , en til að byrja með var notast við bráðabirgða flatir og teiga . Flatirnar komu síðan ein af annarri og sumarið 1993 voru fjórar flatir byggðar og tyrfðar. Á þær fóru um 7000 m2 af torfi sem lagt var í sjálfboðavinnu og með aðstoð starfsmanna.
Formlega var síðan völlurinn opnaður árið 1993 og Golfklúbbur Kiðjabergs stofnaður 6. apríl það sama ár. Stofnendur klúbbsins voru 41, allir félagar í Meistarafélagi húsasmiða og makar þeirra. Fyrsti formaður var Örn Isebarn og var hann prímusmótor varðandi uppbyggingu golfvallarins á sínum tíma. Kristinn Kristinsson tók við af Erni sem formaður 1995 og var í því starfi til 2005 er Jóhann Friðbjörnsson tók við og stýrir hann klúbbnum í dag.
Sumarið 1994 voru síðustu flatirnar tyrfðar á 15. og 17. braut. Teigar og glompur fæddust jafnhliða þessum framkvæmdum. Sumarið 1993 var fest kaup á golfskálanum sem hafði verið sem veitingahús í Ólafsvík. Var hann fluttur að Kiðjaberg í júní og komið fyrir á undirstöðum sem steyptar höfðu verið. Meistarafélag húsasmiðja greiddi allan kostnað af þessum framkvæmdum.
Á árunum 1999 – 2001 var áhaldarhúsið byggt það er um 220 fermetrar, með 60 fermetra íbúð, sem hugsuð var fyrir starfsmenn og til útleigu. Árið 2002 var tekið í notkun æfingasvæði norðan skálans og keypt ný boltavél.
Vinsældir Kiðjabergsvallar voru miklar á þessum árum og hafði hann sprengt allt utan af sér þar sem völlurinn var einungis 9 holur. Fékk stjórn GKB þá heimild hjá MH til að ráðast í stækkun á vellinum og var það samþykkt með þeim skilyrðum að golfklúbburinn fjármagnað þær framkvæmdir með rekstrafé golfklúbbsins sem var gert.
Haustið 2001 var vallarstjórinn, Haraldur Már Stefánsson, fenginn til að endurhanna seinni hluta vallarins í samráði við vallarnefnd. Gerðar voru þó nokkrar breytingar á upprunalegri hönnun Hannesar á þessum vallarhluta (sem í dag er spilaður sem fyrri hluti) og var formlega vígður 18. júní 2005. Golfskálinn var stækkaður árið 2009 og sá Meistarafélag húsasmiða alfarið um þá framkvæmd.
Öll stærstu golfmót landsins hafa þegar farið fram á vellinum og það stærsta Íslandsmótið í höggleik, sem fram fór í júlí 2010. Alls hafa fimm Íslandsmót, þrjár sveitakeppnir og eitt mót á Eimskipafélagsmótaröð GSÍ verið haldin á vellinum frá 2005.
Félagafjöldi Golfklúbbs Kiðjabergs telur nú rúmlega 400 manns og hefur því tífaldast frá stofnum hans. Er stefnan sett á að fjölga félögum umtalsvert á næstu misserum. Aðstaðan til golfiðkunar á Kiðjabergi hefur breyst mikið til batnaðar síðustu ár. Vélakostur klúbbsins er sífellt að stækka verða betri. Má segja að það séu fáir ef nokkur annar völlur á landsbyggðinni, sem státar af jafn góðu vélkosti og GKB. Þó svo að klúbburinn hafi fjárfest mikið á liðnum árum í uppbyggingu vallar og tækjakaupum þá eru skuldir klúbbsins óverulegar í dag.
Klúbburinn hefur sent lið til þátttöku í sveitakeppni GSÍ frá árinu 2005 og höfum við lengst af leikið í 2. deild en þó einu sinni leikið í 1 deild. Nú sendum við þrjár sveitir til keppni, þar sem við höfum bætt við karla og kvennaliði í keppni eldri kylfinga.
Klúbburinn hefur átt því láni að fagna að eiga góða styrktaraðila í gegnum árin. Má þar nefna BM Vallá, Húsasmiðjuna, Byko, Ölgerð Egils, VÍS, Bónus, Samskip og ýmsa banka sem klúbburinn hefur átt viðskipti við. Síðan eru margir smærri aðilar og einstaklingar sem stutt hafa við bakið á okkur í gegnum tíðina. Þessum aðilum er þakkað sérstaklega fyrir góðan stuðning.
Einn er sá aðili sem hefur af óbilandi trú á þessu verkefni og hefur verið formaður Vallarnefndar lengst af. Þetta er Gunnar nokkur Þorláksson. Ég get hiklaust sagt að þessi völlur væri ekki í þessu ástandi, sem hann er í dag, ef Gunnars hefði ekki notið við, að leysa hin ýmsu verkefni sem stjórnin hefur þurft að takast á við í gegnum tíðina.
Vallarstjórar á vellinum hafa verið nokkrir og má þar helst nefna Steinn Ólafsson, Eirík Steinsson, Harald Má Stefánsson og Birki Má Birgisson.
Ég gæti haldið áfram að telja upp einstaklinga sem hafa komið að uppbyggingu vallarins með stjórnarsetu störfum í nefndum, vinnu við mótahald og vinnu á vellinum, en þeim er öllum þökkuð sú fórnfýsi sem þeir hafa fært klúbbnum í gegnum þessi 20 ár frá stofnun hans.
Jafnframt færum við Meistarafélagi húsasmiða okkar bestu þakkir fyrir gott samstarf á þessum árum.
Framtíðarsýn stjórnar Golfklúbbs Kiðjabergs er sú að mæta kröfum og þörfum gesta okkar og félaga með það að leiðarljósi að gera upplifun heimsóknar á völlinn sem eftirminnilegasta. Að halda uppi góðu starfi meðal félaga og viðhalda þeim góða anda og þeirri miklu samheldni sem ríkir innan klúbbsins. Að halda uppi öflugu mótastarfi og vera ákjósanlegur aðili í vali Golfsambands Íslands á mótshöldurum. Að fjölga félögum klúbbsins eftir fremsta megni og stefna að fullsetnum klúbb í komandi framtíð. Að vera virkir í nýjungum og öllu því sem getur aukið umsvif klúbbsins í von um aukna arðsemi. Að efla og viðhalda aðbúnaði klúbbsins til að takast á við stefnda útvíkkun, án þess að skuldsetja klúbbinn umfram viðráðanleg mörk.
Framkvæmdum á vellinum verður haldið í lámarki næstu árin þar sem við höfum staðið í kostnaðarsamri uppbygginu á vellinum undanfarinn ár með góðum árangri, án þess þó að skuldsetja klúbbinn sem neinu nemur. Þó eru verkefni til staðar í ýmsum lagfæringum á flötum og má þar helst nefna 2., 10. og 11. flöt. Þá er þörf á aukinni stígagerð þar sem golfbíla umferð um völlinn er allt að því meiri en völlurinn þolir.
Hér hefur lauslega verið farið yfir sögu klúbbsins og framtíðarsýn hans í stuttu máli en þess má geta að við munum gefa út afmælisblað þar sem nánar er fjallað um sögu klúbbsins og er reiknað með að blaðið komi út í lok maí.“

Heimild: Heimasíða GKB