9. flöt Hvaleyrarvallar. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 3. 2014 | 08:00

GK: Keilir fær sjálbærnivottun GEO

Á heimasíðu Golfklúbbsins Keilis má lesa eftirfarandi frétt:

GEO Umhverfisvottun
GEO Umhverfisvottun

„Golfklúbburinn Keilir tilkynnir með mikilli ánægju að hann hefur nú hlotið GEO CertifiedTM-sjálfbærni- og umhverfisvottunina, sem gefin er út af GEO, Golf Environment Organization. GEO eru umhverfissamtök sem starfrækir vottunarkerfi fyrir golfvelli. Samtökin njóta víðtæks stuðnings innan golfhreyfingarinnar á heimsvísu og vinna náið með aðilum utan golfheimsins líkt og UNEP, umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna, og eru aðilar að ISEAL, alþjóðlegum samtökum umhverfismerkja.

Á liðnum árum hefur Golfklúbburinn Keilir stigið ýmis framfaraskref í þágu umhverfisverndar og sjálfbærni, sem felur jafnframt í sér aukin gæði og hagræðingu í rekstri. Meðal slíkra verkefna eru samstarf við álverið í Straumsvík til að endurnýta kælivatn, sem klúbburinn notar til vökvunar, og nýting gamalla mannvirkja sem áður tilheyrðu Sædýrasafninu í þágu heilsárs æfingaaðstöðu. Allt er þetta í anda hugmyndafræðinnar um sjálfbærni og sjálfbæra þróun, sem klúbburinn hefur einsett sér að starfa eftir í framtíðinni.

Í skýrslu úttektaraðila segir að Hvaleyrarvöllur sé skrautfjöður fyrir Hafnarfjarðarbæ, þar sem golfleikurinn sé nýttur sem jákvætt afl í þágu ábyrgrar umgengni um land og iðkaður sem heilsusamleg útivist sem stunda má gegn hóflegu gjaldi. Leikurinn sé þannig aðgengilegur fólki úr öllum áttum og á öllum aldri. „Þessu hefur Golfklúbburinn Keilir áorkað, þökk sé sterkri vitund klúbbsins um sjálfbærni og umhverfismál, sjálfboðavinnu ötulla félagsmanna og hið víðtæka samstarf hans við fyrirtæki og sveitarfélag,“ segir enn fremur í skýrslunni.

Golf Environment Organization var stofnað árið 2006 til að hvetja til aukinnar vitundar um sjálfbærni og umhverfismál í golfhreyfingunni á heimsvísu. GEO eru þau umhverfissamtök innan golfheimsins sem náð hafa einna bestri fótfestu á liðnum árum og eru þau studd af öllum stærstu samtökum hreyfingarinnar, s.s. R&A í St. Andrews, evrópsku mótaraðarinnar og Ryder-bikarsins.

Síðan fyrsti völlurinn fékk vottun árið 2009, þá hafa liðlega eitt hundrað golfvellir víða um heim hafa nú hlotið GEO CertifiedTM-vottunina, þar á meðal eru þekktir og nafntogaðir vellir á borð við gamla völlinn í St. Andrews, Carnoustie og Turnberry sem margir golfáhugamenn þekkja. Golfklúbburinn Keilir er mjög stoltur af því að vera kominn í svo glæsilegan félagsskap.“

Nánar má lesa um Golf Environment Organization á http://golfenvironment.org

Vottunarumsókn Keilis og skýrslu úttektaraðila má lesa á vef Golf Environment Organization http://www.golfenvironment.org/directory/362_golfkl_bburinn_keilir