Sigurpáll Geir Sveinsson, GK, á ráðstefnu SÍGÍ, 24. febrúar 2012. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 26. 2012 | 10:00

Formaður PGA á Íslandi, Sigurpáll Geir Sveinsson hélt góða ræðu á ráðstefnu SÍGÍ

Í gær veitti Sigurpáll Geir Sveinsson, formaður PGA á Íslandi sína sýn á starf vallarstjóra og umhirðu golfvalla, á ráðstefnu SÍGÍ í  góðri ræðu.

Það sem m.a. var til umfjöllunar í erindi Sigurpáls var hvernig þróunin hefði verið hér á landi í umhirðu golfvalla. Sigurpáll taldi hana vera mjög góða. Golfvellir væru fyrr góðir og héldust þannig lengra fram á haustið. Hann sagði meiri metnað lagðan í flatir og nýja velli vera hannaða af fagmennsku og þar væri hvergi til sparað. Vellirnir væru betri m.a. vegna betri menntunar vallarstarfsmanna og betri tækjakostar. Eins væri almennt meiri metnaður.

Betri tækjakostur og efni auðvelda alla umhirðu golfvalla.Mynd: Golf1.is

Sigurpáll gerði samanburð á stórum golfvöllum og litlum. Hann sagði litlu vellina gefa þeim stóru lítið eftir í sumum tilvikum. Ástæða þess væri m.a. að minni ágangur væri á þá en á stóru vellina á höfuðborgarsvæðinu, þar sem væri samfellt spil nánast allan sólarhringinn á góðviðrisdögum yfir hásumarið.

Í ræðu Sigurpáls kom fram að hinn almenni kylfingur væri oft óvæginn og ósanngjarn þegar kæmi að störfum vallarstjóra og vallarstarfsmanna. Lítill skilningur væri oft á veðurfarslegum þáttum og umhverfisþáttum og áhrifum þeirra á gróður á golfvöllum.

Eins kom fram að  almennt væri lítil meðvitund um framlag vallarstjóra og starfsmanna til íþróttarinnar, en þeir væru að sinna störfum sínum vel. Vallarstarfsmenn væru fagmenn sem ynnu dag og nótt að gerðu sitt besta.

 

Vallarstjórar og vallarstarfsmenn fjölmenntu á ráðstefnu SÍGÍ. Mynd: Golf 1.

Fólk yrði að gera sér grein fyrir að það þyrfti hita og gott veður til að golfvellir yrðu frábærir. Annars væru vellirnir góðir á Íslandi þegar horft væri til vallanna í júlí, ágúst og september, sérstaklega þegar horft væri 15-20 ár aftur í tímann.

Sigurpáll sagði og að meiri fræðsla þyrfti að vera um hvað gerðist t.d. þegar kal yrði og hvatti vallarstarfsmenn og stjóra að upplýsa almúgann með skrifum um gras og golfvallarumhirðu.  Golf 1 tekur með ánægju við slíkum greinum til birtingar sé áhugi vallarstarfsmanna og/eða stjóra að skrifa slíka grein. Vinsamlegast sendið greinar á golf1@gofl1.is

Sigurpáll minntist á að hæð yfir sjávarmáli hefði áhrif þ.e. lega golfvallanna yfir sjávarmáli. T.d. væri Grafarholtið ósamanburðarhæft við Þorlákshöfn í maí. Eins hefði halli flata mikið að segja upp á hver hraði á þeim ætti að vera, t.d. væri ósamanburðarhæft að spila 250 fermetra flöt í halla en 1000 fermetra flöt á jafnsléttu. Þær sem væru í halla væru augljóslega mun erfiðari ef hraðinn á þeim væri jafnmikill.

Eins sagði Sigurpáll vallaraðstæður hafa mikið að segja í undirbúningi og leikskipulagsþjálfun kylfinga en þar kæmu inn þættir eins og lengd og breidd brauta, hraði, mýkt og stærð flata.

Karginn reynist konum oft erfiður - hugmynd kom upp að halda Íslandsmót karla og kvenna á sitthvorum golfvellinum. Mynd: Golf 1

Sigurpáll nefndi að vellir væru settir upp mun erfiðari fyrir Íslandsmót, en þeir væru dagsdaglega. Á Íslandsmótum væri t.d. stórkostlegt að geta verið með flatarhraða.  Hann sagði að karginn væri samt oft svo erfiður að konur ættu oft mjög erfitt að ráða við þetta þunga röff, sem krafist væri að karlkylfingarnir réðu við. Skorið yrði þ.a.l. hærra hjá konum og kvenkylfingar fengju neikvæðan samanburð og umfjöllun á við karlana. Það fældi síðan konur frá golfíþróttinni. Sigurpáll sagði að hann hefði velt fyrir sér hvort skoða ætti möguleikann að vera með Íslandsmót karla og kvenna á sitthvorum vellinum.

Sigurpáll vísaði til Ragnhildar Sigurðardóttur, sem sagði að engin úrtökumót sem hún hefði farið á hefðu verið með jafn erfiða uppsetningu og Leiran 2005. Sú uppsetning hefði ekki verið boðleg fyrir konur.   Á hinn bóginn taldi Sigurpáll að Leiran 2011 hefði verið sett upp eins vel og hægt var að mati hans og Ragnhildar. Hraði flata þoldi vind og karginn var sanngjarn fyrir konur og skorið hefði verið mjög lágt ef veður hefði haldist gott, en veðrið á Leirunni sá um að halda skorinu í skefjum.  Sigurpáll sagði að frá sínum bæjardyrum séð væri auðveldara að selja golf ef konur væru að spila á -12-15 undir pari heldur en +8 yfir pari.

Loks hvatti Sigurpáll til meiri samvinnu milli SÍGÍ, GSÍ og PGA og stakk upp á að skipuð yrði mótanefnd.

Það var reglulega gaman að sitja hluta ráðstefnu, þar sem hópur, sem að meirihluta voru karlmenn voru að spá í að gera golfvelli boðlega og spilanlega fyrir konur. Það var sérstaklega virðingarverður hluti af ræðu Sigurpáls, sem reyndar flutti hluta ræðu sinnar f.h. Ragnhildar Sigurðardóttir, sem ekki komst á ráðstefnuna.  Sigurpáll bar ráðstefnuþátttakendum og gestum kveðju Ragnhildar og sagði að þau bæði væru stolt af íslenskum vallarstjórum og vallarstarfsmönnum!

Höfuðstöðvar GSÍ í Laugardal - Oft er spurt að því hvar Vörnin sé nú eiginlega? Vörnin er á 3. hæð í Laugardalnum! Mynd: Golf 1.

Ráðstefnan var haldin í Vörninni, glæsilegum salarkynnum GSÍ í Laugardalnum.