Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 18. 2013 | 18:30

Evróputúrinn: Uihlein nýliði ársins!

Á  fyrsta keppnistímabilli  Peter Uihlein á Evrópumótaröðinni vann hann Madeira Islands Open og varð í 14. sæti á peningalista Evrópumótaraðarinnar, Race to Dubai.

Uihlein, sem er 24 ára, er fyrsti Bandaríkjamaðurinn til þess að sigra Sir Henry Cotton nýliðaverðlaunin. Þar með er hann kominn í hóp manna á borð við  Nick Faldo, José María Olazábal, Colin Montgomerie og  Martin Kaymer.

Uihlein sagði m.a.: „Það er heiður að vinna Sir Henry Cotton nýliðaverðlaunin.“

„Ég bjóst ekki við því en þetta hefir verið frábært ár og ég er mjög ánægður. Ég hugsa að ég sá fyrsti sem ekki er frá Evrópu sem vinnur nýliðaverðlaun Evrópumótaraðarinnar, þannig að það er mikill heiður. Í hvert sinn sem maður er fyrstur til að gera eitthvað er það huggulegt.

„Að sigra í Madeira var frábært og ég var oft meðal efstu 10. Ég spilaði vel alla vikuna á Madeira og stóð mig vel í vindinum og það var gott að klára verkið. Þessi sigur opnaði dyr fyrir mig, ég gat spilað á Wentworth  (the BMW PGA Championship) vikuna á eftir.

„Ég átti að byrja árið á Áskorendamótaröðinni, en í stað þess var ég í 11. sæti á peningalistanum og með þátttökurétt  á lokamótinu, þannig að þetta var ekki það sem ég hafði gert ráð fyrir en augljóslega er frábært hvernig allt hefir farið.“

Uihlein varð líka í 2. sæti á  ISPS Handa Wales Open og the Alfred Dunhill Links Championship, og munaði minnstu í síðargreinda mótinu að hann lyki 1. hring á 59!!!

George O’Grady, framkvæmdastjóri Evrópumótaraðarinnar sagði: „Við óskum Peter (Uihlein) hjartanlega til hamingju með framúrskarandi keppnistímabil þar semhann hefir heillað golfáhangendur og reynt við ýmsa titla. Hann er verðugur viðtakandi Sir Henry Cotton nýliðaverðlauna þessa árs.“

„Ótrúlegt skor hans upp á 60 högg í Kingsbarns, þar sem hann missti arnarpútt sitt fyrir 59 með brotabroti sentimetri, mun lifa í minningunni sem einn besti leikurinn á Evrópumótaröðinni.“