Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 17. 2013 | 11:00

Evróputúrinn: Sergio Garcia hefur titilvörn á morgun í El Saler

Á morgun hefst í Parador de El Saler, Open de España mótið, sem er hluti Evrópumótaraðarinnar.

Það er Spánverjinn Sergio Garcia, sem á titil að verja. Hann virðist í góðu formi þessu dagana og mætir eflaust keikur til leiks eftir ágætis frammistöðu á the Masters risamótinu, þar sem hann sýndi nokkra glæsitakta á köflum. Garcia varð T-8, þ.e. deildi 8. sætinu í the Masters ásamt Matt Kuchar og Lee Westwood.

Gonzalo Fernandez-Castaño, José Maria Olazábal, Rafa Cabrera-Bello og fleiri „heimamenn“ gera sér vonir um að verða aðeins 5. sigurvegarinn frá Spáni frá upphafi, en aðeins 4 Spánverjum hefir tekist að sigra í mótinu: Antonio Garrido, sem vann fyrsta mótið 1972; Seve (sem vann mótið 3 sinnum: 1981, 1985 og 1995); Sergio Garcia (2002 og 2012) og Alvaro Quiros (2010).

Annað markvert við mótið er að gamla brýnið Miguel Ángel Jiménez tekur þátt í mótinu og er þetta 1. mótið hans á 2013 keppnistímabilinu, en Jiménez slasaðist á skíðum í Ölpunum um jólin.