Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 15. 2012 | 17:45

Evróputúrinn: Jeev Milkha Singh sigraði á Opna skoska

Það má segja að Indverjinn Jeev Milkha Singh, hafi stolið sigrinum af Ítalanum Francesco Molinari, sem búinn var að spila eins og engill allt mótið, þ.e. Aberdeen Asset  Management Scottish Open. Báðir voru þeir Singh og Molinari á 17 undir par eftir hefðbundið 72 holu spil.  Það varð því að koma til bráðabana milli þeirra, þar sem Singh hafði betur fékk fugl á par-5 18. lokaholuna, en Molinari „aðeins“ par.  Singh fékk €518. 046,- sigurtékka en Molinari „aðeins“ €345.360,-

Þriðja sætinu deildi heimamaðurinn Marc Warren bróðurlega með Alex Norén frá Svíþjóð, en báðir voru aðeins 1 höggi frá að komast í bráðabanann, á samtals 16 undir pari.

Daninn Sören Kjeldsen varð að sætta sig við að deila 5. sætinu með 2 öðrum á 15 undir pari og Svíinn Henrik Stenson var í öðru tríói samtals 14 undir pari og deildu þeir 8. sætinu.

Indverjum virðist líða vel í Skotlandi því enn annar Indverji SSP Chowrasia varð líka ofarlega í mótinu þ.e. deildi 11. sætinu með 4 öðrum á 13 undir pari.

Luke Donald, Phil Mickelson, Martin Laird og Pádraig Harrington voru meðal 8 kylfinga sem deildu 16. sætinu og spiluðu á 12 undir pari, hver.

Til þess að sjá úrslitin á Opna skoska SMELLIÐ HÉR: