Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 3. 2013 | 14:30

Evróptúrinn: Dou 16 ára fór í gegnum niðurskurð á China Open en Ye 12 ára náði ekki

Dou Ze-cheng, 16 ára og 101 daga ungur, varð sá yngsti í dag í sögu Volo China Open, sem er mót vikunnar á Evróputúrnum, til þess að ná niðurskurði í Binhai Lake golfklúbbnum í Tianjin, Kína.

Dou var samatals á 2 undir pari, 142 höggum (70 72) og deilir 36. sæti, sem er stórglæsilegur árangur 16 ára drengs á Evrópumótaröðinni.

„Mér leið vel þegar ég byrjaði, en átti í vandræðum á seinni 9,“ sagði Dou, sem ætlar að reyna við að komast í gegnum úrtökumót fyrir Opna bandaríska risamótið eftir þetta mót.

„Ég er ánægður með skorið og glaður yfir að hafa komist í gegnum niðurskurðinn – nú ætla ég bara að njóta þess að spila um helgina – ég er ekkert að hugsa of mikið um skorið, bara reyna mitt besta og fá reynslu.“

12 ára kínverski kylfingurinn, sem var sá yngsti til þess að keppa í móti Evrópumótaraðarinnar, Ye Wo-cheng komst ekki í gegnum niðurskurð – var á samtals 14 yfir pari (79 79).

„Ég spilaði mjög vel á fyrri 9, þannig að ég var ánægður með byrjunina,“ sagði Ye, sem var á 37, fyrri 9.

„Ég var minna stressaður í dag, sem er ástæðan fyrir að ég spilaði vel í byrjun en á seinni 9 strögglaði ég svolítið, sem voru vonbrigði. En allt í allt er ég enn ánægður með hvernig ég spilaði.“

„Golf er erfiður leikur á þessu keppnisstigi og á þessum völlum, en mér finnst eins og ég muni innan skamms verða tilbúinn og ég hlakka til næsta skiptisins sem ég fæ að spila í svona móti,“ sagði strákurinn 12 ára Ye Wo-cheng.

Þjálfari Ye, David Watson er yfir sig ánægður með frammistöðu litla skjólstæðingsins síns. „Hann fór fram úr öllum mínum væntingum, sérstaklega hvað snertir andlegu hlið golfsins.“ sagði Watson að lokum.