Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 13. 2014 | 16:00

Els æfir sig með stuttum pútter!

Ernie Els hefir spilað í 9 mótum á s.l. 10 vikum og segir hann að þó að niðurstöðurnar hafi ekkert verið frábærar og hann hafi ekki komist svo oft í gegnum niðurskurð þá verði að líta á heildarmyndina.

Þannig segir Els eftirfarandi á vef Sólskinstúrsins:

„Það hefir virkilega verið indælt að spila hér og nú þegar við erum í Flórída er það ekki virkilega erfitt heldur. Lífið er gott hér, Liezl og krökkunum líður vel og ég nýt þess að einbeita mér að PGA Tour. Ég hef ekki gert það síðan… ja, næstum aldrei. Öll ferðalögin um heiminn og síðan að búa í Englandi … það gerist ekki aftur.

Orkustig mitt er gott og andlega finnst mér ég vera á góðum stað núna. Ég er að vinna mikið í nokkrum atriðum og bara að reyna að fara aftur með leik minn á þann stað sem ég veit að ég get keppt á. Ég er að komast þangað. Aðalatriðið er að ég verð að venjast að nota stutta pútterinn undir pressu. Það er aðalástæðan fyrir því að ég spila svona mikið keppnisgolf. Ég gæti æft mér til óbóta í  The Bear’s Club, og kannski lagt smá undir í leik við  Michael Jordan og það er allt gott og blessað. En það er ekki það sama og að spila í móti. Því verð ég að spila á (PGA) Tour.“