Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 11. 2013 | 10:30

Eimskipsmótaröðin (2): Viðtal við Önnu Sólveigu sigurvegara Securitas mótsins

Anna Sólveig Snorradóttir, GK, vann fyrsta sigur sinn á Eimskipsmótaröðinni í gær á 2. móti mótaraðarinnar, Securitas mótinu úti í Eyjum.  Anna Sólveig lék á samtals 13 yfir pari, 223 höggum (74 72 77).

Golf 1 tók stutt viðtal við Önnu Sólveigu.

Golf 1: Innilega til hamingju með fyrsta sigurinn á Eimskipsmótaröðinni!  Hvað varð til þess að þú sigraðir?

Anna Sólveig:  Ætli það hafi ekki bara verið það að ég fékk ekki neinar sprengjur , ég var ekki out of bounds, hélt boltanum inni á vellinum og var að spila mjög stöðugt golf.

Golf 1: Hvað er þér eftirminnilegast frá þessari helgi?

Anna Sólveig: Ég veit það ekki – að hafa spilað stöðugt golf.  Kannski bara sigurinn sjálfur, fyrsti sigurinn á Eimskipsmótaröðinni.

Golf 1: Áttu þér einhverja uppáhaldsholu á Vestmannaeyjavelli?

Anna Sólveig: Það er engin ein hola, sem stendur upp úr. Mér finnst þær allar mjög fínar.

Golf 1: Ætlar þú að taka þátt í öllum mótum Eimskipsmótaraðarinnar?

Anna Sólveig:  Já, ég ætla að taka þau fyrir í sumar.

Golf 1:  Hver eru markmiðin í sumar?

Anna Sólveig:  Að standa mig sem best.

Golf 1: Svona að lokum hver heldur þú að sigri á Opna bandaríska?

Anna Sólveig:  Tigerinn.